Lífið

Móðirin hljóp frá þremur börnum og „fór í Kanann“

Jakob Bjarnar skrifar
Elín Íris sagði frá ótrúlegum uppvexti sínum í Bítinu í morgun.
Elín Íris sagði frá ótrúlegum uppvexti sínum í Bítinu í morgun. vísir/magnús hlynur

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir varaþingmaður Flokks fólksins sagði brot af ævintýralega harðneskjulegu uppeldi sínu en móðir hennar „fór í Kanann“ frá fjórum börnum. Faðir hennar gat fyrirgefið framhjáhaldið en aldrei með hverjum það var.

Elín Íris hyggst skrifa bók um reynslu sína og hún var gestur í Bítinu þar sem hún sagði undan og ofan af uppeldi sínu. Hún hefur efnt til söfnunar á Karoline Fund til að standa straum af kostnaði vegna útgáfunnar undir titlinum: Heima er – sjálfsævisaga konu sem elst upp við óhefðbundnar aðstæður.

Sem er vægt til orða tekið.

„Þetta eru 45 kaflar, stór bók og fjallar um tímabil ævi minnar, frá því ég man fyrst eftir mér og til 1992. Þá kynnist ég fyrrverandi manni mínum og kemst í mjög þakkarvert öryggi með honum.“

Hljóp frá heimili og fór í Kanann

Elín Íris segir að hún hafi fram til þess tíma upplifað sig svo að hún skipti ekki máli. Þannig sé með krakka sem alast upp á heimili þar sem pabbinn geri allt til að halda heimilinu saman. Það ríki mikil fátækt og móðirin sé farin.

„Það kemur ekkert frá henni, börnin verða út undan því það koma alltaf fleiri og fleiri ráðskonur sem ganga inn og út. Ættingjar aðstoðuðu mikið, sem er gríðarlega þakkarvert, en þetta var mjög óhefðbundið og rótlaust heimili.“

Elín Íris safnar nú á Karoline Fund til að standa straum af kostnaði við útgáfu bókarinnar.flokkur fólksins

Móðirin farin en þó ekki úr þessum heimi.

„Nei. Svo verð ég svo heppin að ég fæ að kynnast henni. Hún fór til Keflavíkur þar sem skyldmenni mín eru. En hún fer svo upp á Völl að djamma, kynnist hermanni – officer – og verður yfir sig ástfangin af honum. Og skilyrði sem hann setur er að ef hún vilji koma til sín komi hún ein.“

Fjölskyldan bjó í Þorlákshöfn. Þá voru börnin orðin fjögur og hún hafði gefið þann yngsta sem var bara kornabarn.

„Pabbi sagði við mig að hún gæfi ekki barnið hans án míns samþykkis. En barnið hafði verið í fjórar vikur hjá fjölskyldu sem var miklu betur stæð en við og hann áttaði sig á því að þetta var miklu betra fyrir barnið úr því sem komið var.“

Afklæddi átta ára stúlku fyrir framan bekkinn og káfaði á henni

Þetta breytir væntanlega andrúmsloftinu á heimilinu?

„Auðvitað. Og ég saknaði mömmu alveg gríðarlega. Móðurímyndarinnar hennar og styrksins. Það er erfitt að búa í litlu sjávarplássi úti á landi. Fordómarnir voru miklir. Ástandið var ljótt, þú varst að svíkja, jafnvel þjóðina þína, og fara í Kanann.“

Elín Íris er í miðju þriggja systkina. Eldri systir hennar er þremur árum eldri.

„Þetta fór mjög illa með hana og hún lokar á bernskuna. Hún man litinn á fermingarkjólnum sínum og svo man hún ekkert meira um bernskuna. Svo lentum við í áreiti í bænum. Ég fór með henni í orgeltíma og horfði upp á gróft áreiti í hennar garð. Þá er hún rétt rúmlega átta ára og ég fimm ára. 

Maður áttar sig ekki á alvarleikanum þegar kennarinn tekur hana úr öllum fötunum, klessir henni við hliðina á sér og kennir henni nótur með annarri og káfar á henni með hinni.“

Elín Íris segir að sá hafi verið tíðarandinn. Hann hafi verið þekktur fyrir þetta og kennarinn og annar til en það hafi bara verið talað um að börnin ættu að passa sig á þeim.

„En þetta er ekki harmsaga,“ segir Elín Íris. Þetta snýst ekki um að hún hafi haft það vont.

Móðirin átti við alkóhólisma að stríða

„Þetta er þroskasaga, ég skrifa um mömmu, pabba og hvernig þau kynnast. En þetta hlýtur að hafa verið gríðarleg ást. Pabbi var brotinn maður en nú þarf hann að reiða sig á ráðskonur. Hann fyrirgaf mömmu aldrei að hafa farið í Kanann.“

Elín Íris segir að vissulega hafi framhjáhaldið verið högg fyrir föður sinn en verra var að móðir hennar skyldi hafa farið í Kanann.

„Jújú, algjörlega, hún fór á bak við hann. Ég gat fyrirgefið henni framhjáhaldið, sagði hann, en ekki að hafa farið í Kanann.“

Þannig hafi tíðarandinn verið á þeim tíma.

Elín Íris ræddi þetta við föður sinn undir það síðasta af hans ævi en hann veiktist illa. Honum fannst það óréttlátt. Hann sagðist hafa tekið sér stöðu með henni sem móður en hún var grátt leikin af alkóhólisma. En þetta gat hann ekki fyrirgefið.“

Viðtalið við Elínu Írisi í heild sinni má finna hér ofar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.