Erlent

Annar maður skotinn til bana af ICE

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota.
Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota. AP/Alex Kormann

Annar maður hefur var skotinn til bana af fulltrúum Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna, ICE, í Minnesota. Nokkrar vikur eru síðan fulltrúi ICE skaut konu til bana.

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, greinir frá á samfélagsmiðlinum X. Miðillinn Minnessota Star Tribune hefur eftir lögreglu að maðurinn sé látinn.

Á myndbandsupptöku af vettvangi sjást fulltrúar ICE yfirbuga mann og síðan skjóta hann. Ekki liggur fyrir hver aðdragandi árásarinnar var en lögregla segir frá því að maðurinn hafi verið vopnaður byssu og skothylkjum.

„Ég var að tala við Hvíta húsið eftir aðra hræðilega skotárás af hendi fulltrúa alríkisyfirvalda í morgun. Minnesota hefur fengið nóg. Þetta er hræðilegt,“ skrifar Walz.

Sex vikur eru síðan fulltrúar ICE tóku til starfa í Minnesota-fylki með það að markmiði að handtaka alla glæpamenn og ólöglega innflytjendur. Þann 7. janúar var hin 37 ára gamla Renee Good var skotin til bana af fulltrúum ICE.

Í framhaldinu hefur mikill fjöldi fólks mótmælt í Minnesota. Í gær voru tugir handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu á meðan mótmælunum stóð.

Opinber X-aðgangur Minneapolis-borgar greinir frá því á X að unnið sé að rannsókn á málinu og að íbúar séu beðnir um að halda ró sinni og rýma mótmælasvæðið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×