Handbolti

„Svo kemur Ómar Ingi og fer að spila eins og Viggó“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skiluðu saman fimmtán mörkum úr sextán skotum í sigrinum á Svíum. Eina klikkið var vítið sem Ómar lét verja frá sér í upphafi leiks og eftir það fóru fimmtán skot í röð frá þeim beint í markið.
Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skiluðu saman fimmtán mörkum úr sextán skotum í sigrinum á Svíum. Eina klikkið var vítið sem Ómar lét verja frá sér í upphafi leiks og eftir það fóru fimmtán skot í röð frá þeim beint í markið. Vísir/Vilhelm

Viggó Kristjánsson var öðrum fremur maður leiksins í stórsigrinum á Svíum á EM í handbolta í gærkvöldi og með magnaðri innkomu hans kviknaði heldur betur á hægri vængnum hjá íslenska landsliðinu. Örvhentu leikmennirnir í Besta sætinu voru líka ánægðir með þessa innkomu Viggós og líka hvaða áhrif það hafði á Ómar Inga Magnússon.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason, tveir fyrrverandi landsliðsmenn, fóru yfir stórbrotna frammistöðu strákanna okkar í átta marka sigri gegn Svíum á EM í handbolta, með Aroni Guðmundssyni.

Viggó var með ellefu mörk úr ellefu skotum í leiknum og hjálpaði okkur heldur betur á vítalínunni eftir öll klúðrin þar í tapinu á móti Króatíu.

„Þetta var stórbrotin frammistaða. Að skora 11 mörk úr 11 skotum og hann kemur inn af bekknum. Hann byrjar ekki einu sinni leikinn og hann kláraði ekki leikinn,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

Engin smá frammistaða frá hægri vængnum

„Við vorum eitthvað að hnýta í þá að hægri vængurinn væri ekki búinn að vera alveg eins og við vildum. Ómar er líka með fjögur mörk í leiknum og þetta er engin smá frammistaða frá hægri vængnum þannig að við örvhentu erum ánægður með þetta,“ sagði Ásgeir.

„Það er líka hvernig hann gerir þetta. Hann kemur inn eftir að Ómar byrjaði að taka víti og klikkaði. Svo kemur hann með þessi negluvíti. Þetta var statement [yfirlýsing]. Það segir manni hvernig hugarástandið hjá honum var. Hann virkilega ætlaði þetta og mér fannst það bæði ánægjulegt og geðveikt fyrir hann,“ sagði Ásgeir.

„Geggjað að fá þessa innkomu því svona aukaáhrif frá hans frammistöðu er að svo kemur Ómar Ingi og fer að spila eins og Viggó,“ sagði Rúnar Kárason.

Já, það er hægt að skjóta

„Allt í einu bara: Heyrðu, já, það er hægt að skjóta. Ekki að fara bara í gegn. Það er bara hægt að skjóta á síðuna á þeim,“ skaut Ásgeir inn í.

„Þetta eru tveir frábærir skotmenn. Ómar er lágvaxinn og kannski ekki þessi klassíska skytta þegar við horfum til baka en Ómar er frábær skotmaður. Mér finnst Viggó, frá því hann kom inn í landsliðið, vera allt öðruvísi leikmaður en við höfum séð í íslensku landsliði áður,“ sagði Rúnar.

Hreinræktaður goal getter

„Hann er hreinræktaður goal getter [markaskorari] og ótrúlega góður í því. Hvernig hann er að notfæra sér Gísla [Þorgeir Kristjánsson] Gísli er gjörsamlega að mata alla í kringum sig af færum. Viggó er að fá boltann, taka hann bara í fyrsta skrefi og í rauninni bara á undan vörninni. Ómar heldur síðan uppteknum hætti, þegar Viggó þarf á hvíld að halda,“ sagði Rúnar.

„Bara fyrir mig sem skyttu, sem saknar skotlistarinnar svolítið, þá var þetta geggjað,“ sagði Rúnar.

Það má hlusta á frekari umræðu um Viggó og allar hinar hetjurnar í íslenska landsliðinu hér í Besta sætinu hér fyrir neðan en þátturinn fékk nafnið: Uppgjör eftir Ísland – Svíþjóð: Takk fyrir IKEA, ABBA og stigin tvö Svíar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×