Viðskipti innlent

Vínbúðinni í Smára­lind lokað fyrir sumarið

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þorgerður Kristín segir dreifikerfið ÁTVR í stöðugri skoðun.
Þorgerður Kristín segir dreifikerfið ÁTVR í stöðugri skoðun. Aðsend og Vísir/Vilhelm

Vínbúð ÁTVR í Smáralind verður lokað fyrir sumarið. Þorgerður Kristín Þráinsdóttir forstjóri segir sölu hafa verið undir væntingum og því verði versluninni lokað. Starfsmönnum verður boðin vinna í öðrum vínbúðum og því verður engum sagt upp.

„Það eru tveir starfsmenn sem hafa verið fastráðnir í bara þessari verslun,“ segir Þorgerður Kristín í samtali við fréttastofu. Aðrir starfsmenn hafi verið samnýttir í öðrum verslunum og það standi til að halda því áfram. Fyrst var greint frá á vef mbl.is.

Hún segir sölu hafa verið undir væntingum undanfarin misseri. Hún segir til dæmis töluvert öðruvísi stöðu í Kringlunni, annarri verslunarmiðstöð.

„Við erum með dreifikerfið í heild sinni í stöðugri endurskoðun. Þetta er aðgerð sem við erum að grípa til núna,“ segir Þorgerður.

Vínbúðin í Dalvegi er næsta vínbúð í nágrenni við Smáralind. Þorgerður Kristín segir gott aðgengi þar. Vísir/Vilhelm

Viðskiptavinir muni hafa aðgang að verslunum í næsta nágrenni. Til dæmis sé gott aðgengi að verslun á Dalvegi í Kópavogi en svo einnig verslanir í Álfabakka í Reykjavík, í Kauptúni í Garðabæ og Flatahrauni í Hafnarfirði sem viðskiptavinir geti nýtt sér í staðinn.

Þorgerður Kristín segir ekki í kortunum að opna nýjar verslanir ÁTVR á næstunni. Hún segir dreifikerfi þeirra í stöðugri skoðun. Hægt sé að panta úr öðrum verslunum til að sækja í verslun í hverfinu en ekki önnur þjónusta í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×