Enski boltinn

Sjáðu lag­lega af­greiðslu hins sjóð­heita Barrys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thierno Barry jafnar metin í 1-1 fyrir Everton gegn Leeds United.
Thierno Barry jafnar metin í 1-1 fyrir Everton gegn Leeds United. getty/Simon Stacpoole

Eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu hefur franski framherjinn Thierno Barry fundið fjölina sína með Everton. Hann skoraði jöfnunarmark liðsins gegn Leeds United í eina leik gærdagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 1-1.

Leeds var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik á Hill Dickinson leikvanginum í gær og leiddi, 0-1, að honum loknum. James Justin skoraði markið á 28. mínútu eftir sendingu frá Antoni Stach. Dominic Calvert-Lewin var hársbreidd frá því að koma gestunum í 0-2 gegn sínu gamla liði en skaut í stöng.

Everton sótti í sig veðrið í seinni hálfleik og fór að ógna marki Leeds. Karl Darlow, markvörður gestanna, varði frá Barry en hann kom engum vörnum við þegar Frakkinn jafnaði metin á 76. mínútu. Hann setti boltann þá upp í þaknetið eftir fyrirgjöf frá Idrissa Gana Gueye. Senegalinn hefði getað tryggt Everton sigurinn undir lokin en skot hans fór í slána.

Klippa: Everton - Leeds 1-1

Barry skoraði aðeins eitt mark í fyrstu átján leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu fimm deildarleikjum. Frá því í byrjun desember hafa aðeins Ollie Watkins, Calvert-Lewin og Erling Haaland skorað meira í ensku úrvalsdeildinni.

Everton keypti Barry frá Villarreal fyrir 27 milljónir punda í sumar. Hann skoraði ellefu mörk í spænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Everton er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Leeds í því sextánda.

Mörkin úr leik Everton og Leeds má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Barry bjargaði stigi fyrir Everton

Thierno Barry sá til þess að Everton náði jafntefli gegn Leeds United, 1-1, á heimavelli í lokaleik 23. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×