Erlent

Segir Venesúela munu þurfa að sækja um út­hlutun úr eigin olíusjóði í Katar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rubio var tvísaga varðandi mögulega hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Venesúela. Í bréfi til nefndarinnar sagði hann  Bandaríkjastjórn reiðubúna til að grípa til aðgerða til að knýja fram vilja sinn en fyrir nefndinni sagði hann engar áætlanir uppi um beitingu hervalds.
Rubio var tvísaga varðandi mögulega hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Venesúela. Í bréfi til nefndarinnar sagði hann Bandaríkjastjórn reiðubúna til að grípa til aðgerða til að knýja fram vilja sinn en fyrir nefndinni sagði hann engar áætlanir uppi um beitingu hervalds. Getty/Chip Somodevilla

Allar tekjur af sölu olíu frá Venesúela munu rata í sjóð í umsjá Katar. Þá munu stjórnvöld í Venesúela hafa samþykkt að leggja fram mánaðarlega fjárhagsáætlun, sem verður fjármögnuð með úthlutun úr sjóðnum. Fjármögnunin verður háð samþykki Bandaríkjastjórnar.

Frá þessu greindi utanríkisráðherrann Marco Rubio fyrir utanríkismálanefnd öldungadeild Bandaríkjaþings í gær. Þetta var í fyrsta sinn sem Rubio mætti fyrir nefndina frá því að Bandaríkjamenn handsömuðu Nicolás Maduro, forseta Venesúela, þann 3. janúar síðastliðinn.

Nefndarmenn úr röðum Demókrata virtust hafa ýmsar efasemdir um fyrirkomulagið sem Rubio lýsti, ekki síst þeirri ákvörðun að fela Katar umsjón olíusjóðsins. Sögðu þeir það mögulega ekki standast lög. Rubio viðurkenndi að fyrirkomulagið væri óvenjulegt en sagði það meðal annars nauðsynlegt til að hindra að fyrirtæki sem teldu sig eiga inni hjá Venesúela gætu gert kröfur í sjóðinn. 

Demókratarnir bentu einnig á að það virtist ekkert koma í veg fyrir að Delcy Rodríguez, sitjandi forseti, og ríkisstjórn hennar vörðu fjármununum í að styrkja stöðu sína, til að mynda með greiðslum til bardagahópa og eiturlyfjabaróna. Þá gat Rubio ekki svarað því hvenær eða hreinlega hvort Bandaríkjastjórn hygðist beita sér fyrir stjórnarskiptum í landinu.

Rubio lagði mikla áherslu á að stjórnvöld í Venesúela hefðu skuldbundið sig til að opna landið fyrir bandarískum olíufyrirtækjum og nota gróðan til þess að kaupa vörur og þjónust af Bandaríkjunum.

„Þið eruð að taka olíuna þeirra með hótunum um ofbeldi,“ sagði Demókratinn Christopher S. Murphy. „Þið eruð að ákveða hvernig og í hvað fjármununum er varið, af þjóð sem telur 30 milljónir einstaklinga. Ég held að mörg okkar telji að þetta geti ekki annað en farið illa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×