Handbolti

Aron vann brons og bætti enn við rós í hnappa­gat ís­lenskra þjálfara

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Kristjánsson færði Kúveit langþráð verðlaun á Asíumótinu.
Aron Kristjánsson færði Kúveit langþráð verðlaun á Asíumótinu. Getty/Luka Stanzl

Á sama tíma og þrír íslenskir þjálfarar eru komnir í undanúrslit Evrópumóts karla í handbolta þá var sá fjórði, Aron Kristjánsson, að stýra liði Kúveit til bronsverðlauna á Asíumótinu.

Kúveitar höfðu ekki unnið til verðlauna á Asíumótinu síðan árið 2008 en þeir höfðu betur gegn Japan í æsispennandi leik um bronsið í dag, 33-32.

Mótið fer fram í Kúveit og voru heimamenn með yfirhöndina stærstan hluta leiksins en Japan aldrei langt undan. Þegar staðan hafði verið jöfn, 25-25, um miðjan seinni hálfleik skoraði Kúveit hins vegar fjögur mörk en Japan tókst smám saman að jafna metin aftur, 31-31, þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Næstu tvö mörk voru Kúveita sem unnu að lokum eins marks sigur.

Barein og Katar mætast í úrslitaleik mótsins síðar í dag en Katar hafði betur í framlengdum leik gegn Kúveit í undanúrslitunum.

Liðin fjögur sem komust í undanúrslit tryggðu sér öll farseðilinn á HM 2027 rétt eins og Íslendingar hafa nú gert ásamt hinum sex efstu liðunum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×