Handbolti

„Lítill stuðningur við strákana okkar að aug­lýsa í fjöl­miðlum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir þurfa að standa saman inn á vellinum en það verður líka að passa upp á að styðja landsliðið utan vallar.
Íslensku strákarnir þurfa að standa saman inn á vellinum en það verður líka að passa upp á að styðja landsliðið utan vallar. Vísir/Vilhelm

Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri KKÍ og sviðsstjóri getraunasviðs hjá Íslenskum getraunum, benti á athyglisverðan hlut í stuttum pistli um íslenska handboltalandsliðið á samfélagsmiðlum í dag.

Handknattleikssamband Íslands glímir við stóran skuldabagga en hefur engu að síður tekist að búa til eitt besta handboltalandslið í Evrópu.

„Nú dynja á landsmönnum auglýsingar þar sem hin ýmsu fyrirtæki auglýsa að þau styðji „strákana okkar“. Það er samt lítill stuðningur við „strákana okkar“ að auglýsa í fjölmiðlum. Alvöru stuðningur frá fyrirtækjunum er fjárstuðningur við fjárvana HSÍ. Árangur kostar peninga,“ skrifaði Pétur Hrafn.

Pétur Hrafn Sigurðsson

Hann kallar eftir því að fyrirtækin fari að standa betur við þá fullyrðingu að þau standi á bak við íslenska handboltalandsliðið.

„Fyrirtækin sem auglýsa stuðning við „strákana okkar“ hljóta að standa við stóru orðin. Ef hvert þeirra greiðir tvær milljónir króna til HSÍ er um alvöru stuðning að ræða sem fljótt vinnur á skuldabagga sambandsins. HSÍ á þá meiri möguleika á að undirbúa „strákana okkar“ fyrir næsta stórmót ásamt „stúlkunum okkar“ og öllum yngri landsliðum sambandsins,“ skrifaði Pétur Hrafn.

Hann gengur lengra og gagnrýnir þau fyrirtæki sem láta ekki verkin tala þegar kemur að því að hjálpa HSÍ í gegnum fjárhagsvandræðin sín.

„Fylgi auglýsingunum ekki fjármagn til HSÍ er ekki um stuðning að ræða og þá er það ekkert annað en ómerkilegt auglýsingaskrum,“ skrifaði Pétur.

Hann vill fá opinbera pressu á þessi fyrirtæki með því að fá markaðsstjóra HSÍ til að taka saman stuðningsauglýsingar fyrirtækja í fjölmiðlum og bera þær saman við fjárframlög þeirra til HSÍ og birta niðurstöðurnar til dæmis á vef HSÍ.

„Hann gæti líka hringt í framkvæmdastjóra viðkomandi fyrirtækja og boðið þeim að styðja sambandið um tvær milljónir eða svo,“ skrifaði Pétur eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×