
Annmarkar skýrslunnar góðu
Þótt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) sé góðra gjalda verð, eru á henni annmarkar, sem bæta þarf úr. Skýrslan flettir að sönnu ofan af fullyrðingum stjórnvalda um Ísland sem fórnarlamb fjármálakreppunnar úti í heimi. Ekki þurftu Norðurlönd á neyðaraðstoð Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins (AGS) að halda vegna kreppunnar. Þvert á móti hafa þau stutt Ísland með lánveitingum í samstarfi við AGS. Hrunið var heimatilbúið, þótt neistinn, sem kveikti bálið, bærist að utan. Skýrsla RNA tekur af tvímæli um þetta, og það gera einnig aðrar heimildir. Undan þeirri niðurstöðu verður ekki vikizt.