Erlendar

New Jersey stöðvaði Detroit
Lið New Jersey Nets stöðvaði í nótt 11 leikja sigurgöngu Detroit Pistons með 91-84 sigri á heimavelli sínum. Chauncey Billups skoraði 30 stig fyrir Detroit, en Jason Kidd skoraði 23 stig, hirti 12 fráköst og gaf 7 stoðsendngar hjá New Jersey.

Tottenham keypti Murphy á elleftu stundu
Úrvalsdeildarlið Tottenham keypti miðjumanninn Danny Murphy frá Charlton á elleftu stundu fyrir lokun félagaskiptagluggans á miðnætti í kvöld. Kaupverðið er rétt undir 2 milljónum punda og kveðst Murphy mjög spenntur að vera genginn í raðir félagsins.

Gríðarlegt áfall fyrir landsliðið
Hinn harðskeytti Alexander Petersson, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, kjálkabrotnaði í leiknum við Rússa í dag og verður því ekki meira með liðinu í keppninni. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir íslenska liðið, því Petersson er algjör lykilmaður í liðinu - ekki síst í varnarleiknum.

Dallas - Chicago í beinni
Leikur Dallas Mavericks og Chicago Bulls verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland í kvöld og hefst leikurinn klukkan 01:30. Þarna mætast tvö mjög skemmtileg lið sem koma til með að bjóða upp á góðan körfubolta í nótt.

Fulham lagði Tottenham
Heiðar Helguson og félagar í Fulham unnu góðan sigur á grönnum sínum í Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld 1-0. Það var Carlos Bocanegra sem skoraði sigurmarkið á lokamínútu leiksins. Heiðar lék allan leikinn með Fulham og fékk reyndar að líta gula spjaldið, en Michael Dawson hjá Tottenham var vikið af leikvelli á 73. mínútu með sitt annað gula spjald fyrir að brjóta á Heiðari.

Serbar unnu Norðmenn
Lið Serbíu og Svartfjallalands lagði Norðmenn naumlega að velli í kvöld í milliriðli okkar Íslendinga, 26-25. Að loknum fyrsta deginum er íslenska liðið í efsta sæti með fimm stig, Rússar í öðru með fjögur, eins og Króatar, Danir hafa þrjú, Serbar tvö og Norðmenn eru enn án stiga.

Jafnt hjá Fulham og Tottenham í hálfleik
Nú er kominn hálfleikur í leikjunum fjórum sem standa yfir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Middlesbrough hefur yfir 2-0 gegn Sunderland á útivelli, jafnt er hjá Wigan og Everton og markalaust er hjá Charlton og West Brom og í leik Fulham og Tottenham.

Birmingham kaupir DJ Campbell
Hlutirnir hafa verið fljótir að gerast í lífi hins 24 ára gamla framherja DJ Campbell, því í dag var hann keyptur til úrvalsdeildarliðs Birmingham fyrir hálfa milljón punda frá liði Brentford. Fyrir aðeins ári síðan var Campbell á mála hjá utandeildarliðinu Yeading, þar sem hann æfði knattspyrnu aðeins tvisvar í viku.

Earnshaw til Norwich
Úrvalsdeildarlið West Brom hefur selt lítið notaðan framherja sinn Robert Earnshaw til 1. deildarliðs Norwich fyrir um 3,5 milljónir punda. Earnshaw byrjaði feril sinn hjá Cardiff og er í landsliði Wales. Hann er 24 ára gamall, en hefur fá tækifæri fengið með West Brom í vetur og vildi fara frá félaginu.

Króatar lögðu Dani
Króatar unnu nauman sigur á dönum í 2. milliriðli EM í handbolta nú undir kvöldið 31-30, eftir að hafa verið yfir 15-14 í hálfleik. Króatar hafa því hlotið 4 stig í riðlinum, en Danir hafa þrjú. Íslenska liðið er á toppi riðilsins með 5 stig. Þá sigruðu Frakkar Slóvena í dag 34-30.

Scaloni til West Ham
West Ham fékk í dag argentínska landsliðsmanninn Lionel Scaloni að láni út leiktíðina frá spænska liðinu Deportivo La Coruna. West Ham mun þó ekki geta keypt leikmanninn þó hann standi sig vel með liðinu, en þetta er vissulega góður fengur fyrir Alan Pardew og hans menn.

Blackburn fær liðsstyrk
Úrvalsdeildarlið Blackburn gekk frá samningi við tvo leikmenn nú rétt áðan. Fyrst keypti það David Bentley frá Arsenal og gerði við hann langtímasamning, en hann hefði verið í láni hjá Blackburn síðan í haust. Þá fær liðið franska sóknarmanninn Florent Sinama Pongolle hjá Liverpool að láni út leiktíðina.

Fjórir leikir á dagskrá í kvöld
Fjórir leikir verða á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Hermann Hreiðarsson og félagar í Charlton taka á móti West Brom, Heiðar Helguson og félagar í Fulham mæta Tottenham, Sunderland tekur á móti Middlesbrough og Wigan mætir Everton. Tveir síðastnefndu leikirnir hefjast klukkan 19:45, en hinir fyrri klukkan 20.

City hafnaði boði Boro í Barton
Middlesbrough er sagt hafa boðið Manchester City 4 milljónir punda í miðjumanninn Joey Barton í dag, en City neitaði því um hæl. Talið er að forráðamenn City vilji fá nær 6 milljónum fyrir Barton, en helst vilja menn þar á bæ auðvitað halda í hann, þó hann hafi farið fram á að verða seldur frá félaginu í gær eftir að lítið gekk í viðræðum um nýjan samning hans.

Þjóðverjar völtuðu yfir Úkraínu
Þjóðverjar voru ekki í vandræðum með Úkraínumenn í 1. milliriðlinum á EM í handbolta í dag og sigruðu 36-22 eftir að hafa verið með aðeins tveggja marka forystu í leikhléi. Florian Kehrmann var markahæstur hjá Þjóðverjum með 9 mörk og Henning Fritz varði 21 skot í markinu.

Enn selur Tottenham
Tottenham losaði sig við enn einn leikmanninn í dag þegar miðjumaðurinn Michael Brown var seldur til Fulham í dag fyrir óuppgefna upphæð, en liðin eigast einmitt við í úrvalsdeildinni í kvöld. Brown hefur ekki átt fast sæti í liðinu á leiktíðinni og fagnar því að fara til Fulham í þeirri von að fá að spila meira.

Glæsilegur sigur Íslendinga á Rússum
Íslenska landsliðið í handbolta vann glæsilegan sigur á Rússum í Sviss í dag 34-32, eftir að hafa verið yfir í hálfleik 17-15. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 11 mörk fyrir íslenska liðið og Ólafur Stefánsson gerði 8 mörk.

Íslendingar yfir gegn Rússum í hálfleik
Íslenska landsliðið í handknattleik hefur yfir 17-15 gegn Rússum þegar flautað hefur verið til leikhlés. Ólafur Stefánsson hefur skorað 6 mörk, Guðjón Valur 5 og Snorri Steinn er með 5 mörk, þar af eitt úr vítakasti.

Argentínumaður til Portsmouth
Úrvalsdeildarlið Portsmouth hefur fengið til sín enn einn leikmanninn áður en félagaskiptaglugganum á Englandi lokar í kvöld. Í dag fékk félagið Argentínumanninn Andres D´Allessandro að láni út leiktíðina, en hann er ungur landsliðsmaður sem spilar á miðjunni og kemur frá Wolfsburg í Þýskalandi.

Tottenham kaupir miðjumann
Úrvalsdeildarlið Tottenham Hotspurs hefur fest kaup á egypska miðjumanninum Hossam Ghaly frá Feyenoord í Hollandi og hefur hann skrifað undir langtímasamning við félagið. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Tottenham segist þekkja vel til leikmannsins og segist vera búinn að fylgjast með honum í átta ár, eða síðan hann var 17 ára gamall.

Miami lagði LA Clippers
Miami vann í nótt sigur á LA Clippers í skemmtilegum leik 118-114, þar sem leikmenn Miami gerðu út um leikinn í lokin með góðri vítanýtingu. Dwayne Wade var þeirra atkvæðamestur með 28 stig og 11 stoðsendingar, en Elton Brand skoraði 31 stig fyrir Clippers og Cuttino Mobley skoraði 28 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Með nýjan samning á borðinu
Tékkneski markvörðurinn Petr Cech hjá Chelsea er sagður muni skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið á allra næstu dögum. Cech hefur verið algjör lykilmaður í velgengni liðsins síðan hann kom til Englands sumarið 2004. Núverandi samningur hans rennur þó ekki út fyrr en árið 2008.

Óvænt tap hjá meisturunum
Túnisar töpuðu óvænt 3-0 fyrir Gíneu í lokaleik C-riðilsins í Afríkukeppninni í knattspyrnu í kvöld og því var það Gínea sem hafnaði í efsta sæti riðilsins og mætir liðinu sem endar í öðru sæti í D-riðlinum. Túnis mætir efsta liðinu í sama riðli í 16-liða úrslitunum. Þá vann Zambía sigur á Suður-Afríku 1-0, en þar var lítið í húfi því hvorugt liðið kemst áfram í keppninni.

Joey Barton vill fara frá City
Miðjumaðurinn Joey Barton hjá Manchester City hefur farið fram á að verða seldur frá félaginu eftir að uppúr slitnaði í viðræðum hans við félagið um nýjan samning. Forráðamenn City vilja ekki uppfylla kröfu hins 23 ára gamla leikmanns og reyna nú allt til að tala um fyrir honum.

Portsmouth fær liðsstyrk
Úrvalsdeildarlið Portsmouth hefur bætt við sig tveimur leikmönnum á lánssamningi út leiktíðina, en þetta eru Serbinn Ognijen Koroman frá Terek Groznyi í Rússlandi og Wayne Routledge frá Tottenham, en sá síðarnefndi er fjórði leikmaðurinn sem Portsmouth fær frá Lundúnaliðinu á stuttum tíma.

Dublin til Glasgow
Glasgow Celtic hefur fest kaup á gamla refnum Dion Dublin frá Leicester City og hefur gengið frá samningi við hinn 36 ára gamla leikmann út leiktíðina. Dublin er fjölhæfur leikmaður og lék áður undir stjórn Gordon Strachan hjá Coventry.

Rodman segist geta spilað aftur í NBA
Skrautfuglinn Dennis Rodman segist eiga nóg inni í körfuboltanum eftir að hann gerði ágætt mót með liði Brighton Bears í enska körfuboltanum um helgina. Rodman skoraði fjögur stig og hirti sjö fráköst í sigri liðsins á Guildford Heat 91-88 um helgina.

Zebina fer ekki frá Juventus
Varnarmaðurinn Jonathan Zebina mun ekki fara frá ítölsku meisturunum Juventus til Tottenham í janúarglugganum eins og enska liðið hafði vonast til. Kom á daginn að Fabio Capello vildi ekki að leikmaðurinn færi frá liðinu núna, en þó er ekki loku fyrir það skotið að Tottenham kaupi Frakkann í sumar.

Nú eru jólin
Framherjinn Robbie Fowler var kynntur til sögunnar sem nýjasti liðsmaður Liverpool á blaðamannafundi í dag, þar sem hann sagði að framvegis yrði hver dagur eins og jóladagur hjá sér eftir að hann fékk að snúa aftur á gamlar slóðir.

Ballack fær engan draumasamning
Forráðamenn Bayern Munchen láta nú í það skína að litlir peningar verði handbærir til að bjóða Michael Ballack risasamning, en núverandi samningur hans rennur út í sumar. Ballack hefur fram að þessu ekki viljað ræða nýjan samning og hefur verið orðaður við lið á Englandi og á Spáni.