Innlent
Bíræfinn þjófur handtekinn á Akureyri
Þjófur braust inn í íbúð á Akureyri í gærkvöldi og stal þaðan tveimur fartölvum og ýmsum fylgihlutum. Hann komst undan með þýfið en fékk augastað á fleiri verðmætum í íbúðinni. Þegar hann hugðist sækja þau greip lögreglan hann á staðnum og við húsleit heima hjá honum fannst þýfið úr fyrri ferðinni.
Sextán ára réttindalaus stúlka velti bíl
Sextán ára og réttindalaus stúlka slasaðist þegar bíll sem hún ók valt út af veginum í Selvogi, vestan við Þorlákshöfn í gærkvöldi. Tveir farþegar hennar sluppu ómeiddir. Malarvegur er á þessum slóðum og var nýbúið að dreifa lausu slitlagi á hann þegar slysið varð. Eigandi bílsins, sem var með í för, hafði leyft stúlkunni að aka bílnum. Hún mun ekki vera alvarlega slösuð.
Hrasaði og slasaðist á fæti
Göngumaður hrasaði og meiddist á fæti í Reykjadal, ofan við Hveragerði í gærkvöldi og varð ófær til göngu. Kallað var á björgunarsveit frá Hveragerði sem sótti manninn á börum og flutti til byggða. Hann var fluttur á Landsspítalann en mun ekki vera alvarlega slasaður.
Sótti veikan sjómann
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í nótt fárveikan sjómann um borð í íslenskan togara úti af Reykjanesi og flutti hann á sjúkrahús í Reykjavík. Talið er að maðurinn hafi fengið bráðaofnæmi. Leiðangurinn gekk vel, enda veður gott á slóðum togarans.
Tíu meðlimir Fáfnis handteknir vegna líkamsárásar
Tíu meðlimir vélhjólaklúbbsins Fáfnis voru handteknir í nótt eftir að þeir höfðu gengið í skrokk á einum félagsmanni í félagsheimili klúbbsins við Hverfisgötu í Reykjavík í nótt. Eftir að þeir höfðu veitt honum marga áverka tókst honum að hringja í lögreglu, sem fjölmennti á vettvang.
Handtekinn fyrir að lokka smástúlkur inn í rjóður
Lögreglan í Reykjavík handtók karlmann á fimmtugsaldri snemma í gærkvöldi, eftir að hann hafði lokkað tvær litlar telpur inn í rjóður við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Hann notaði hamstra til að lokka stúlkurnar inn í rjóðrið, en ekki liggur fyrir hvort hann hafði uppi einhverja kynferðislega tilburði.

Slasaðist lítillega í umferðarslysi
Ökumaður slasaðist laust eftir miðnætti, þegar jeppi hans hafnaði ofan í Ljóta polli, sem er gígur skammt frá Landmannalaugum. Maðurinn meiddist á hálsi og baki og var kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem sótti hann og flutti á Slysadeild Landsspítalans í Reykjavík. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir en Lögreglan á Hvolsvelli rannsakar málið.

Enn tekur Úrvalsvísitalan stökkið
Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,59 prósent í Kauphöllinni í dag. Vísitalan endaði í 8.541 stigi í dag og hefur aldrei verið hærri. Gengi bréfa í Alfesca, eða um 3,96 prósent. Mesta lækkunin varð hins vegar á gengi bréfa í Föroya Banka, sem fór niður um 1,69 prósent.
Uppfært mat á Singer & Friedlander
Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch hefur uppfært lánshæfiseinkunnir Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi. Stuðningseinkunn bankans hækkar um eitt sæti í 2. Þá fær bankinn langtímaeinkunnina A en skammtímaeinkunnina F1.
Regluvarsla NordVest ófullnægjandi
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur komist að þeirri niðurstöðu í kjölfar úttektar, að umgjörð um regluvörslu NordVest Verðbréfa hf. hafi verið ófullnægjandi og hefur farið fram á úrbætur er skyldi vera lokið innan nánar tiltekinna fresta.

Geysir Green Energy leitar réttar síns
Geysir Green Energy ætlar að leita réttar síns vegna samnings sem fyrirtækið telur að hafi verið komin á um kaup á 10% hlut Grindavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Í bréfi sem fyrirtækið sendi einkavæðingarnefnd í gær er vakin athygli á þessu en Grindvíkingar tilkynntu nefndinni að sveitarfélagið hyggðist nýta sér forkaupsrétt á hlut ríkisins í Hitaveitunni.

Katrín Júlíusdóttir valin formaður þingmannanefndar EFTA og EES
Katrín Júlíusdóttir alþingismaður var valinn formaður þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á fundum nefndarinnar í Vaduz í Liechtenstein á dögunum. Ísland fer með forystu í nefndunum tveimur í ár.

Afkoma ríkissjóðs umfram áætlanir
Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins var hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir í fjárlögum. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 34,1 milljarð króna sem er 5,9 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra.

Vantar 0.8 sekúndur upp á Ólympíulágmarkið
Hinn 20 ára gamli Oscar Pistorius sem er fljótasti aflimaði maður heims er staddur hér á landi. Oskar sem er frá Suður Afríku á best 46.56 sekúndur í 400 metra hlaupi sem er hans grein. Hann vantar 0.8 sekúndur til að ná lágmarkinu í þeirri grein fyrir Ólympíuleikana. Pistorius er heimsmethafi í 100, 200 og 400 metra hlaupi í flokki aflimaðra og besti tími hans í 100 metrum er 10.91 sekúnda.

Dregur úr halla á vöruskiptum
Vöruskipti voru neikvæð um 9,6 milljarða krónur í síðasta mánuði, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þetta er nokkur umskipti frá sama tíma á síðasta ári en þá voru vöruskiptin neikvæð um 15,4 milljarða krónur.

Jóhanna gagnrýndi lækkun lánshlutfalls í fyrra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, sem ákvað í gær að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs og hámarkslán líka, gagnrýndi samskonar aðgerð þáverandi ríkisstjórnar harðlega á heimasíðu sinni í fyrra. Þetta kemur fram á heimasíðu Kristins H. Gunnrssonar alþingismanns.
Í haldi lögreglu eftir fíkniefnaleit
Karlmaður er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að talsvert af amfetamíni og kannabisefnum fundust við húsleit heima hjá honum í nótt. Hann hefur áður gerst brotlegur, meðal annars fyrir fíkniefnasölu. Lögreglumenn sáu til hans í nótt og þótti ástæða til að hafa afskipti af honum, sem leiddi til handtökunnar.
Undir áhrifum fíkniefna við akstur
Tvö ungmenni gista nú fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau eru talin svo vönkuð af fíkniefnaneyslu, að þau geti verið sjálfum sér og umhverfi sínu hættuleg. Þau voru farþegar í bíl sem stöðvaður var við venjulegt eftirlit í nótt og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Honum var sleppt að yfirheyrslum loknum.
Lögreglumenn kallaðir á Slysadeild í nótt
Tveir lögreglumenn hafa þurft að vera á vakt á Slysadeild Landsspítalans í nótt vegna manna, sem voru lagðir þar inn í annarlegu ástandi og voru viðskotaillir. Tilkynnt var um báða mennina í annarlegu og ef til vill hættulegu ástandi.

Þriggja ára bið
Opinber neytendayfirvöld voru rösk þrjú ár að taka afstöðu til þess hvort Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hefðu brotið lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Sérfræðingur hjá Neytendastofu segir málið eftirlegukind frá því Samkeppnisstofnun var lögð niður.

6 km ljósmyndalabb
Sex kílómetra ljósmyndalabb verður í boði fyrir gesti og heimamenn á Eskifirði í sumar. Sýningin er óvenjuleg því gömlum ljósmyndum er komið fyrir í námunda við þann stað sem myndirnar voru teknar.

36 á Grensás eftir umferðarslys
Þrjátíu og sex manneskjur þurftu endurhæfingu á Grensás á síðasta ári eftir alvarleg umferðarslys. Sumir þeirra voru margbrotnir, heilaskaddaðir og aðrir lamaðir.

Úrvalsvísitalan í methæðum
Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,08 prósent við lokun viðskipta í Kauphöllinni í dag og endaði vísitalan í 8.408. Hún hefur aldrei verið hærri. Mesta hækkun var á bréfum í Föroya Banka en mest varð lækkun á bréfum færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum.
Árekstur á gatnamótum Miklubrautar og Grensás
Árekstur varð á gatnamótum Miklubratar og Grensás fyrir stundu. Mikið hefur hægt á umferð út úr bænum í kjölfarið. Lögregla er á staðnum en ekki er vitað um slys á fólki.

Eldur kom upp í malbikunarstöð að Sævarhöfða
Eldur kom upp í malbikunarstöðinni Höfða að Sævarhöfða um klukkan tíu í morgun. Eldsupptök voru í blöndunarturni stöðvarinnar þar sem bikinu er blandað saman við mölina. Neisti hljóp í dísilolíu sem notuð er við malbiksgerðina og varð töluverður eldur.

Sjávarútvegsráðherra enn óákveðinn
Ríkisstjórnarfundi lauk laust fyrir klukkan ellefu án þess að sjávarútvegsráðherra legði fram skiptingu kvótans fyrir næsta fiskveiðiár. Fundurinn átti að hefjast klukkan hálf tíu, en hófst ekki fyrr en rúmlega tíu, að Samfylkingarráðherrarnir mættu. Þeir höfðu setið á fundi annarsstaðar síðan klukkan átta í morgun og meðal annars fengið sjávarútvegsráðherra á þann fund.
Lokanir vegna malbikunar
Stekkjarbakki verður lokaður í dag vegna malbikunar. Einnig verða gatnamótin Stekkjarbakki, Höfðabakki lokuð í tvo tíma í kringum hádegið.

Óvenjumikið af frjókornum í loftinu
Óvenju mikið er af frjókornum í loftinu núna, mun fyrr en venjulega. Margrét Hallsdóttir, sem hefur umsjón með frjókornamælingum Náttúrufræðistofnunar segir í viðtali við Fréttablaðið að ástæðan sé hversu hlýtt og þurrt hafi verið að undanförnu.

Sjávarútvegsráðherra kynnir ákvörðun á hádegi
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra mun gera grein fyrir ákvörðun sinni um veiðiheimildir á næsta fiskveiðiári á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi og að honum loknum verða þær svo væntanlega kynntar almenningi.
Enn unnið að viðgerð á þotu Delta
Flugvirkjar frá Delta flugfélaginu vinna enn að viðgerð á Boeing 767 breiðþotunni, sem lenti á Keflavíkurflugvelli í fyrrakvöld, eftir að annar hreyfill vélarinnar bilaði þegar vélin var stödd skammt frá landinu. 225 farþegar voru um borð auk áhafnar.