
Innlent

Dýr var sprænan öll
Tíu þúsund króna sekt liggur við því að spræna á almannafæri, hvað þá í mannfjölda í miðborginni og hvað þá utan í lögreglubíl. Að þessu komst maður sem gerði sig sekan um þetta athæfi um helgina. Skýr ákvæði eru um þetta í lögreglusamþykkt höfuðborgarsvæðisins og geta þvaglekir næturgestir átt slíkar sektir yfir höfði sér í framtíðinni.
Eldur í bát á Ísafjarðardjúpi
Þrír útlendingar komust í hann krappann þegar reykur gaus upp í vélarhúsi lítils plast-fiskibáts þegar þeir voru staddir á Álftafirði við Ísafjarðardjúp um klukkan þrjú í nótt. Við þetta drapst á vélinni og kölluðu þeir eftir aðstoð. Björgunarsveitarmenn frá Súðavík sóttu mennina á trillu og var engin hætta á ferðum enda blíðskapar veður og Djúpið spegil slétt.

Prjónar og málar - einhent
Hún er í sextíu prósent vinnu við að kenna geðfötluðum - án þess að þiggja laun. Hún málar og prjónar - með einni hendi. Catherine Ness er engin venjuleg kona.

Ríkið hefur betur í þjóðlenduúrskurðum
Óbyggðanefnd kvað upp úrskurði í fimm þjóðlendumálum á Norðausturlandi í dag. Stór hluti af kröfum fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, var tekinn til greina og eignarlandskröfum þar með að talsverðu leyti hafnað.

Viðskiptaráðherra ekki mótfallinn kynjakvóta
Nýr viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, vill skoða þann möguleika að beita lagasetningu til að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Til að ná stórstígum framförum, segir hann, þarf stundum róttækar aðgerðir.

Velta á fasteignamarkaði eykst milli ára
246 kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Til samanburðar var 148 samningum þinglýst á sambærilegum tíma í fyrra. Meðalupphæð hvers samnings nam 29,4 milljónum krónum þá en nemur nú 28 milljónum króna. Kaupsamningum fjölgaði á Akureyri á sama tíma en meðalupphæð á samning lækkar á milli ára.
Tveir teknir með fíkniefni á Blönduósi
Lögreglan á Blönduósi fann fíkniefni í tveimur bílum í gærkvöldi, en ökumenn voru einir í þeim. Fíkniefnahundur fann efnið í öðrum bílnum en í hinu tilvikinu vísaði ökumaður á efnið.
Tvö í haldi lögreglu vegna árásar
Lögreglan í Reykjavík handtók undir kvöld karlmann, sem er grunaður um að hafa rænt og barið roskinn mann í húsasundi upp af Laugaveginum í fyrrinótt. Upp úr miðnætti gaf ung kona sig svo fram við lögreglu og sagðist hafa tælt manninn inn í sundið til þess að vinur hennar gæti rænt hann.
Umferð með ágætum í gær
Umferð gekk vel til höfuðborgarsvæðisins og annarra þéttbýliskjarna í gær og í gærkvöldi. Framan af degi bar aðeins á hraðakstri en úr honum dró þegar umferð jókst. Ekki er vitað um nein slys eða umtalsverð óhöpp.
Slógust um þýfi
Lögregla var kölluð á Hverfisgötu laust eftir miðnætti þar sem tveir menn slógust heiftarlega. Þeir eru báðir þekktir síbrotamenn, meðal annars fyrir að brjótast inn í bíla. Það hafði einmitt annar gert en ekki áttað sig á inn í hvaða bíl hann var að brjótast.
Síld og kolmunni komin í íslenska lögsögu
Fimm stór fjölveiðiskip eru nú byrjuð að veiða úr Norsk-íslenska síldarstofninum í íslensku lögsögunni austur af landinu. Tvö eru þegar búin að landa. Skipin eru nú norðaustur af landinu. Kolmunninn er líka að ganga inn í íslensku lögsöguna suðaustur af landinu þar sem nokkur fjölveiðiskip eru einnig að veiðum.
Keyrði á og lagði sig síðan
Lögreglumenn handtóku undir morgun ökumann, eftir að hann hafði ekið niður umferðarmerki og utan í nokkra bíla við Nýbýlaveg í Kópavogi. Hann var sofandi í bílnum þegar lögregla kom á vettvang en brást ókvæða við þegar hann var var vakinn.

Deep Purple lofar dúndurfjöri
Stórtónleikar í Laugardalshöll verða haldnir í Laugardalshöll þar sem Íslandsvinirnir í Uriah Heep og Deep Purple ætla að leika öll sín frægustu lög. Bassaleikari Deep Purple lofar óvæntri uppákomu í kvöld.

Verndartollar á landbúnaðarvörum ekki ástæðan fyrir háu matarverði
Nýr landbúnaðarráðherra segir verndartolla á íslenskum landbúnaðarafurðum ekki ástæðuna fyrir háu matarverði hér á landi. Hann segist ekki ætla að rústa íslenskum landbúnaði með því að hefja innflutning á erlendri matvöru.

Meinaður aðgangur að skrifstofu Landsambands eldri borgara
Formanni Landssambands eldri borgara hefur verið meinaður aðgangur að skrifstofu félagsins. Uppstillinganefnd Landssambands eldri borgara telur formanninn of harðan og vill fá nýjan formann.

Uriah Heep enn í fullu fjöri
Tvöfaldur skammtur Íslandsvina stígur á stokk í Laugardalshöllinni annað kvöld, hljómsveitirnar Deep Purple og Uriah Heep, tvær af goðsögnum rokksögunnar. Þótt Uriah Heep hafi rokkað í hartnær fjóra áratugi sýnir sveitin á sér lítil ellimerki.

„Kleppur er ekki endastöð heldur endurhæfingarstöð“, segir fyrrverandi vistmaður
Kleppur er ekki endastöð heldur endurhæfingarstöð, segir þrítug kona sem lögð var inn á spítalann í vetur vegna geðsjúkdóms. Hún segir mikla fordóma gagnvart vistmönnum Klepps í samfélaginu.

Flest ungmenni sem beita önnur börn kynferðisofbeldi hafa sjálf verið misnotuð
Nær flest ungmenni undir átján ára aldri sem misnota börn kynferðislega, hafa sjálf verið misnotuð eða lifað við einhverskonar ofbeldi í uppvexti sínum. Þetta segir Robert E. Lango bandarískur meðferðarsérfræðingur.

Bátar í eigu Kambs seldir frá Flateyri
Samkomulag er um að tveir bátar í eigu Kambs á Flateyri verði seldir til nærliggjandi plássa á Vestfjörðum. Þeir taka ríflega helming kvótans sem Kambur hafði til umráða. Bæjarstjórn Ísafjarðar ætlar að gera úttekt á því hvort hægt sé að stofna félag sem gæti keypt aflaheimildir í þeim tilgangi að halda fiskvinnslu á staðnum.

Fermingarbörn mögulegir hryðjuverkamenn
Kona sem hugðist gefa fermingarbarni fimmþúsund króna inneign á lokaðri bankabók var krafin svara um þjóðerni, hjúskaparstöðu og uppruna fimmþúsundkrónanna í Sparisjóðnum.

Eldur í timburhúsi á Sólheimum
Stórt timburhús á Sólheimum í Grímsnesi logar nú glatt og leggur svartan reyk yfir nágrennið. Slökkvilið vinnur að því að ná tökum á eldinum og eru slökkvibílar frá Selfossi, Laugarvatni og Reykholti á staðnum. Ekki er talið að neinn hafi verið inni í húsinu. Það er að hruni komið en slökkvilið reynir einnig að slökkva sinuelda sem kviknað hafa í norðanvindinum.

Síðasta reykingahelgi Íslands
Síðasta reykingahelgin er runnin upp á veitinga- og skemmtistöðum landsins. Hópur veitingamanna í miðborg Reykjavíkur fór nýverið til Stokkhólms til að kynna sér lausnir þarlendra veitingamanna á reykingabanninu.

Aðstæður á Kárahnjúkum „hræðilegar“
Fjölmiðlar í Portúgal fjalla í dag um ómannúðlega meðferð á starfsfólki sem vinnur á Kárahnjúkum. Dagblöðin Correio da Manha og Publico segja að meira en 100 Portúgalar vinni við afar slæmar aðstæður í göngunum 14 klukkutíma á dag. Forseti verkalýðsfélags í Portúgal segir aðstæður mannanna „hræðilegar."

Mikil hætta vegna kappakstur í Garðabæ
Mikil hætta skapaðst á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ nú á þriðja tímanum þegar tveir ökumenn voru að spyrna skammt frá Olís. Hámarkshraði þar eru 80 km á klukkustund, en mennirnir voru báðir á 170 km hraða þegar þeir voru mældir. Um var að ræða karlmann um tvítugt, og annan á þrítugsaldri. Þeir voru stöðvaðir til móts við Stórás í Garðabæ og fluttir á svæðisstöðina í Hafnarfirði þar sem þeir voru sviptir ökuleyfi.

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins
Einn af vorboðunum sigldi inn Reykjavíkurhöfn í morgun. Það var fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins, MS Fram, sem liggur við Miðbakkann í dag.

Hvetur til að hvítasunna verði þjóðahátíð
Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands hvetur presta til að gera messu hvítasunnunnar að þjóðahátíð kirkjunnar. Þar verði útlendingum og aðkomufólki boðið að lesa texta Postulasögunnar á sínu eigin tungumáli.

Ásókn í lóðir á Urriðaholti
Tilboð bárust í allar þær fjörutíu og sjö lóðir sem opnað var fyrir í Urriðaholti í Garðabæ í gær. Tilboðum var tekið í rúmlega helming lóðanna. Í boði voru lóðir undir fjölbýli, raðhús, parhús og sérbýli. Þar á meðal voru sex óvenju stórar einbýlishúsalóðir sem standa næst Urriðavatni og er heimilt að reisa allt að 900 fermetra hús á þeim.

Hjólað 10,5 hringi í kringum hnöttinn
Rösklega sexþúsund og fimm hundruð manns tóku þátt í fyrirtækjaleiknum Hjólað í vinnuna og voru farnir vel yfir 400 þúsund kílómetra - sem eru um 10,4 hringir í kringum jörðina. Tæplega tveir þriðju hjóluðu og þriðjungur gekk. Sigurvegararnar fengu sigurlaunin afhent í húsdýragarðinum í gær. Öll fyrri met voru slegin að þessu sinni.

Jóhanna Vala er Ungfrú Ísland 2007
Jóhanna Vala Jónsdóttir var kosin Ungfrú Ísland 2007 á Broadway í beinni útsendingu á Skjá einum í gærkvöldi. Jóhanna er tvítug og býr í Reykjavík. Í öðru sæti hafnaði Katrín Dögg Sigurðardóttir, 21 árs frá Seltjarnarnesi. Ungfrú Reykjavík Fanney Lára Guðmundsdóttir varð í þriðja sæti. Hún er tvítug og býr í Kópavogi.

Kleppur 100 ára
Í tilefni af aldarafmæli Kleppsspítala um helgina verður haldin viðamikil dagskrá á spítalanum í dag. Hún hefst klukkan ellefu með hugvekju séra Sigfinns Þorleifssonar. Að því loknu afhendir Reykjavíkurborg Kleppi listaverkið Pilt og stúlku eftir Ásmund Sveinsson.