Með sigrinum gulltryggði Kiel sér Þýskalandsmeistaratitilinn, fjórða árið í röð, og sjötta sinn alls undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.
Aron skoraði þrjú mörk og gaf þrjár stoðsendingar leiknum í kvöld sem var, eins og áður sagði, hans síðasti með Kiel. Landsliðsmaðurinn er sem kunnugt er á leið til Veszprém í Ungverjalandi. Aron varð alls fimm sinnum þýskur meistari með Kiel.
Kiel tapaði ekki leik eftir áramót og vann 14 af 15 síðustu leikjum sínum í þýsku deildinni. Alfreð, Aron og félagar fengu alls 65 stig, tveimur meira en Rhein-Neckar Löwen sem vann fimm marka sigur, 27-32, á Geir Sveinssyni og lærisveinum hans í Magdeburg.

Magdeburg endaði í 4. sæti deildarinnar en liðið tapaði þremur síðustu leikjum á tímabilinu.
Dagur Sigurðsson stýrði Füchse Berlin í síðasta sinn í kvöld þegar Berlínarrefirnir töpuðu 29-32 fyrir Flensburg. Fuchse Berlin endaði í 7. sæti en Flensburg í því þriðja.
Ólafur Guðmundsson skoraði tvö mörk og Rúnar Kárason eitt þegar Hannover-Burgdorf tapaði 29-26 fyrir Melsungen á útivelli.
Hamburg vann eins marks sigur á Gummersbach á heimavelli, 32-31. Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt marka Gummersbach.
Sigurbergur Sveinsson lék ekki með Erlangen sem tapaði fyrir Lübbecke á útivelli, 28-23.
Erlangen féll úr deildinni ásamt Minden, Friesenheim og Bietigheim.
