Körfubolti

Jordan hættur við að fara til Dallas | Verður áfram hjá Clippers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan verður áfram í Los Angeles eftir allt saman.
Jordan verður áfram í Los Angeles eftir allt saman. vísir/getty
Hlutirnir eru oft fljótir að breytast í NBA-deildinni eins og kom í ljós í nótt þegar miðherjinn DeAndre Jordan ákvað að halda kyrru fyrir hjá Los Angeles Clippers eftir að hafa gert munnlegt samkomulag við Dallas Mavericks um að leika með liðinu næstu fjögur árin. Nú er ljóst að ekkert verður af þeim vistaskiptum og Dallas-menn sitja því eftir með sárt ennið.

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla gerðu þjálfari Clippers, Doc Rivers, eigandi liðsins, Steve Balmer og fjórir leikmenn; Chris Paul, Blake Griffin, JJ Redick og Paul Pierce sér ferð til Houston þar sem Jordan býr og fengu hann til að framlengja samning sinn við Clippers.

Þeir héldu miðherjanum nánast í gíslingu í hans eigin húsi fram eftir miðnætti en fram að því mátti ekki ganga formlega frá samningum í NBA.

Samkvæmt því sem blaðamaðurinn Adrian Wojnarowski segir á Twitter-síðu sinni þurftu Clippers-menn ekki langan tíma til að sannfæra Jordan um að halda kyrru fyrir í borg englanna þar sem hann hefur leikið allan sinn feril í NBA.

Marc Stein, sem skrifar fyrir ESPN, segir á Twitter að Jordan hafi samþykkt fjögurra ára samning við Clippers að verðmæti 88 milljóna dollara.

Clippers heldur því sama leikmannakjarna og síðustu ár, með þá Paul, Griffin og Jordan í broddi fylkingar. Þá hafa Pierce og Lance Stephenson bæst í hópinn í sumar og því verður að teljast líklegt að Clippers verði áfram í toppbaráttunni í Vesturdeildinni.

Clippers komst í undanúrslit Vesturdeildarinnar á síðasta tímabili þar sem liðið tapaði 4-3 fyrir Houston Rockets.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×