Innlent

Stefnir Bubba fyrir ærumeiðandi ummæli

Birta Svavarsdóttir skrifar
Steinar Berg hyggst stefna Bubba Morthens fyrir ærumeiðandi ummæli.
Steinar Berg hyggst stefna Bubba Morthens fyrir ærumeiðandi ummæli. Vísir/GVA/Anton Brink
Steinar Berg, fyrrum eigandi hljómplötuútgáfunnar Steina, hefur ákveðið að stefna tónlistarmanninum Bubba Morthens og RÚV fyrir ærumeiðandi ummæli og birtingu þeirra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Steinari Berg.

Málið snýr að því að í þættinum Popp- og rokksaga Íslands, sem upphaflega var sýndur 13. mars síðastliðinn, sakaði Bubbi Morthens Steinar um níðingsskap og blekkingar að sögn Steinars.

Bubbi sagði í þættinum að meðlimir hljómsveitarinnar Egó, sem Bubbi stofnaði í upphafi níunda áratugarins, hafi farið flatt á viðskiptum sínum við útgáfufyrirtækið Steinar hf. Fyrirtækið hafi í raun grætt óeðlilega mikið á plötum hljómsveitarinnar. Þessari fullyrðingu hafnar útgefandi fyrrverandi.

„Þegar ég bar svo af mér aðdróttanirnar færðist Bubbi allur í aukana í fullyrðingum sínum,“ segir Steinar. Fór hann fram á það við RÚV að ummælin yrðu klippt út, en því var hafnað.

Þátturinn verður endursýndur á RÚV í kvöld, 17. ágúst.

„Það er alveg með ólíkindum að RÚV standi fyrir persónulegri aðför að fólki eins og gert er hér, og neiti að hlusta á beiðnir um að ærumeiðandi ummæli séu klippt út,“ segir Steinar í samtali við fréttastofu Vísis.

Steinar hefur tekið saman upplýsingar og gögn sem tengjast samskiptum hans við Bubba Morthens og birt á heimasíðunni www.sannleikurmalsins.com




Fleiri fréttir

Sjá meira


×