

Oft var töluverður munur á kílóverði af fiskmeti í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var miðvikudaginn 4. maí. Algengast var að 20 til 40 prósenta munur væri á kílóverði af fiski í könnuninni.
Formaður stéttarfélagsins VR segir glórulaust að Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að bregðast við hækkandi húsnæðisverði og innfluttri verðbólgu með hækkun stýrivaxta. Hann segir verkalýðshreyfinguna munu gera kröfu um að hækkun stýrivaxta verði bætt upp í gerð komandi kjarasamninga.
Neytendastofa hefur bannað bílasölunum Bílakaupum ehf. og Netbílum ehf. að auglýsa tilboð á notuðum bílum án þess að tilgreina fyrra verð. Þetta er gert eftir að bílasölurnar brugðust ekki við erindum stofnunarinnar og gerðu ekki úrbætur á vefsíðum sínum.
Formaður Starfsgreinasambandsins segir skökku skjóta við að lífeyrissjóðirnir, sem eigi stærstan hlut í öllum helstu matvöruverslunum landsins, skuli ekki mótmæla hækkandi matvöruverði. Hækkandi vöruverð komi helst niður á neytendum, launafólki sem eigi sjóðina.
Verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ segir það skjóta skökku við að matvöruverslanir séu að hækka verð á vörum á sama tíma og tilkynnt hafi verið um margra milljarða króna hagnað hjá þessum sömu fyrirtækjum.
Ákveðið hefur verið að innkalla öll tuttugu gramma Kinder súkkulaðiegg vegna gruns um sýkingar af völdum salmonellu hjá fólki. Einungis sex dagar eru síðan sams konar egg í afmarkaðri framleiðslulotu voru innkölluð.
Um helmingur landsmanna vill að heimilt sé að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum á Íslandi. Aðeins um 22 prósent vilja að sterkt áfengi verði til sölu í matvöruverslunum.
Ekki er lengur hægt að versla grænmeti eða ávexti í Krónunni eftir vigt og eru slíkar vörur nú einungis afgreiddar í stykkjatali. Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að verslunarkeðjan sé með þessu að aðlagast tækniþróun og feta í fótspor verslana á Norðurlöndunum.
Íslendingar eyddu að minnsta kosti tveimur milljörðum króna í skipulagðar utanlandsferðir í marsmánuði. Það er sexfallt meiri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferreri Scandinavia AB í Svíþjóð og Aðföng hafa ákveðið að taka úr sölu og innkalla Kinder Surprise í tveimur pakkningastærðum. Annars vegar 20 gramma stök egg og þriggja stykkja pakkningu með 20 gramma eggjum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fullyrðir að áfram verði verslun á vegum ÁTVR í miðborg Reykjavíkur. Vínbúðinni í Austurstræti verði ekki lokað nema ein til tvær aðrar minni verslanir hafi verið opnaðar í miðbænum.
Sláturfélag Suðurlands, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur stöðvað sölu og innkallað frá neytendum Twix og Bounty ís.
Verðlagsnefnd búvara hefur hækkað lágmarksverð mjólkur til bænda auk heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur. Lágmarksverð fyrsta flokks mjólkur til bænda hækkaði um 6,60 prósent úr 104,96 krónur á lítrann í 111,89 krónur á lítrann þann 1. apríl.
Hraðlest á milli landshluta? Ekki í þessu lífi, segir forstöðumaður almenningssamgöngudeildar Vegagerðarinnar. Aftur á móti er boðuð alger endurskoðun á Strætó á landsbyggðinni.
Samkvæmt verðkönnun Alþýðusambands Íslands sem framkvæmd var þriðjudaginn 29. mars er Bónus að jafnaði með lægsta verðið á matvöru. Dýrast er að versla í Iceland en þar er meðalverð 38% yfir lægsta verði.
Dómsmálaráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í dag frumvarp sem heimilar smærri brugghúsum að selja áfengi á staðnum. Fjármálaráðherra vill ganga enn lengra og einfaldlega leyfa vefverslun með áfengi.
Matvælastofnun varar við neyslu á Úrvals graflaxi frá Eðalfiski vegna bakteríunnar listeríu sem fannst í laxinum. Eðalfiskur hefur ákveðið að innkalla vörurnar.
Sérstakt eldsneytisálag, sem er hluti af farmiðaverði Icelandair, verður hækkað frá og með 1. apríl. Hækkar það úr 5.100 krónum í 6.900 krónur þegar flogið er til Evrópu og úr 8.900 í 12.300 krónur fyrir þegar flogið er til áfangastaða í Norður-Ameríku.
Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra geri breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sér íbúðarhúsnæði til eigin nota.
Mjólkursamsalan hefur tekið úr sölu og innkallað eina tiltekna framleiðslulotu af Stoðmjólk. Ástæða innköllunarinnar er að umrædd framleiðslulota stenst ekki gæðakröfur vegna geymsluþols.
Fjármálaráðherra útilokar ekki að ríkið lækki tímabundið álögur á eldsneytisverð fari verð þess upp í hæstu hæðir. Það sé hins vegar ekki verið að horfa til þeirra leiðar nú til að ná verðbólgunni niður. Heldur fyrst og fremst sértækra aðgerða fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins.
Hús á Lindarbraut á Seltjarnarnesi, sem hefur verið á sölu í fimm mánuði, hefur hækkað um rúmar tuttugu milljónir króna í verði frá því það var sett á sölu. Húsið er 183,4 fermetrar og er til sölu fyrir 192 milljónir króna.
Nýtt upprunamerki fyrir íslensk matvæli, Íslenskt staðfest, var kynnt í dag. Því er ætlað að fræða neytendur, sem eru sagðir vilja skýrar upplýsingar um uppruna matvöru.
Garðyrkjustöðin Ösp hefur ákveðið að innkalla íslenskt batavía salat sem dreift er af Hollt og gott ehf. eftir að glerbrot fannst í vörunni. Ákvörðunin var tekin í samráði við heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
Framkvæmdastjóri N1 telur líklegt að miklar sveiflur verði í eldsneytisverði á næstu dögum og vikum. Bensínverð fór yfir 300 krónur á lítrann í dag hjá flestum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu.
N1 hefur hækkað verð á bensínlítranum um sex krónur og er verðið nú komið í 303,90 krónur á flestum stöðvum félagsins á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu. Dísillítrinn kostar nú víðast 300,90 krónur hjá N1 og hefur hækkað um heilar tíu krónur milli daga.
Bensínlítrinn kostar nú 302,80 krónur bensínstöð Olís í Hrauneyjum. Bensínverð hefur hækkað umtalsvert síðustu vikurnar, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs.
Eigendur rafbíla af gerðinni Tesla virðast vera uggandi eftir fréttir af óbættu vatnstjóni eins þeirra. Margir þeirra segjast ætla að skipta um tryggingar og sumir íhuga jafnvel að falla frá kaupum á pöntuðum Teslum.
Neytendasamtökin hafa tekið Ormsson af listanum yfir þá „svörtu sauði“ sem ekki hafa hlýtt niðurstöðum kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Nýir eigendur tóku við fyrirtækinu í fyrra og hafa gert upp umrætt mál.
Neytendasamtökin hafa nafngreint sjö fyrirtæki sem þau vara neytendur við að versla við en fyrirtækin eiga það öll sameiginlegt að hafa ekki farið að niðurstöðum kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.