Innlent

Engin fjölmiðlalög

MYND/Róbert
Engin lög um takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla verða sett að þessu sinni. Davíð Oddsson forsætisráðherra mun kynna ríkisstjórninni í dag gjörbreytt fjölmiðlafrumvarp. Í því hafa öll takmarkandi ákvæði er varða fjölmiðlafyrirtæki verið tekin út. Eftir standa tvö ákvæði. Annars vegar að fjölmiðlalögin sem forseti synjaði 2. júní falli brott og hins vegar breytingu á skipan útvarpsráðs, samkvæmt heimildum innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hluti af niðurstöðum viðræðna Halldórs og Davíðs er að stofnuð verði nefnd um málefni stjórnarskrárinnar. Stefnt verður að því að festa í stjórnarskrá þá framkvæmdahefð sem verið hefur á Íslandi frá stofnun lýðveldisins, það er að segja að forseti framkvæmi einungis vald ráðherra. Forsetinn yrði eftir því valdalaus og málskotsréttur hans til þjóðarinnar, eins og honum var beitt 2. júní , væntanlega afnuminn. Fjölmiðlanefndin mun taka til starfa að nýju í haust og eins og fram hefur komið mun stjórnarandstaðan taka þátt í starfi hennar. Búist er við því að stjórnarflokkarnir haldi þingflokksfundi strax að loknum ríkisstjórnarfundi sem haldinn verður kl. 9.30, þar sem hið breytta frumvarp verður kynnt. Fundur allsherjarnefndar hefur verið boðaður klukkan 14. "Við erum algjörlega sammála um þá niðurstöðu sem liggur fyrir," sagði Davíð að loknum fundi hans og Halldórs í gær. Af sama tilefni tók Halldór fyrir það að Framsóknarflokkurinn hefði sett fram úrslitakosti í málinu. sda@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×