Erlent

Kerry ekki stríðshetja?

Hópur hermanna úr Víetnam-stríðinu hefur keypt auglýsingapláss í fjölmiðlum til að koma höggi á John Kerry, forsetaframbjóðanda úr flokki Demókrata. Hermennirnir segja Kerry ljúga um hetjudáð sína í Víetnam-stríðinu. Sérstaklega benda hermennirnir á medalíurnar sem Kerry hefur verið að flagga í fjölmiðlum síðustu daga. Þeim blöskraði að eigin sögn ummæli Kerrys um hlutdeild sína í stríðinu og brugðu á það ráð að kaupa auglýsingapláss í fjölmiðlum í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Í þessum ríkjum, Ohio, Vestur-Virginíu og Wisconsin, eru margir kjósendur óákveðnir og reyna hermennirnir að varpa ljósi á herferil Kerrys í von um að hafa áhrif á úrslitin. Hermaður sem þjónaði í tíð Kerrys segir í sextíu mínútna auglýsingu að ekki hefði verið hægt að stóla á Kerry undir neinum kringustæðum í Víetnam. Liðþjálfi úr sjóhernum segir að Kerry hafi ekki verið nein stríðshetja og að honum hefði ekki verið treystandi. Alls koma tólf fyrrverandi hermenn fram í auglýsingunum sem lýsa því yfir að Kerry hafi bara ekki gert neina góða hluti í Víetnam og hann er sagður ljúga um ástæðuna fyrir því að hann fékk bronsstjörnu. Ennfremur segir í auglýsingunum að Kerry hafi svo snúið baki við kollegum sínum í stríðinu með því að berjast gegn því. Hann er því allt að því kallaður svikari og ragggeit í auglýsingunum. Hópurinn safnaði féi fyrir auglýsingunum úr hópi dyggra repúblikana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×