Innlent

Ríkið sé ekki í samkeppnisrekstri

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að ríkisfyrirtæki eigi ekki að vera í samkeppnisrekstri. "Það stendur til að selja Símann og þangað til að það gerist verður Síminn að lúta sömu reglum og önnur fyrirtæki í landinu," segir hann. Aðspurður segist hann fyrst hafa fengið vitneskju um kaup Símans á 26 prósenta hlut í Skjá einum í gegnum síma á laugardag er hann var í útlöndum. Halldór segir það eðlilegt að fyrirtæki, sem er 99 prósent í eigu ríkisins, taki ákvörðun um kaup á fyrirtæki í samkeppnisrekstri án þess að ráðfæra sig við ríkisstjórnina. "Það verður að treysta þeim stjórnum sem eru fengnar til slíkra verka og verða þær að bera ábyrgð gagnvart því ef mistök eru gerð," sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Spurður hvort hann teldi kaup Símans í Skjá einum mistök sagðst hann ekkert vita um það. "Framtíðin verður að leiða það í ljós. Ég hef engar forsendur til að dæma kaupin, hvorki upplýsingar um kaupverð né arðsemismat," segir Halldór. Hann segist ekki geta áttað sig á því hvort kaupin komi til með að flýta sölunni á Símanum. Hann segist ekki heldur geta svarað því hvort ekki hefði verið réttara að semja við Skjá einn um dreifingu á efni í stað þess að kaupa fjórðungshlut í fyrirtækinu. "Það var vitað mál að stjórn Símans var í viðræðum við Stöð 2 um dreifingu á efni og upp úr þeim slitnaði. Í framhaldi af því höfðu átt sér stað viðræður milli Símans og Skjás eins. Að mínu mati verður stjórn fyrirtækis að hafa svigrúm til að gæta hagsmuna fyrirtækis og bera ábyrgð á því. Við getum ekki gert aðrar kröfur til stjórnar ríkisfyrirtækja en einkafyrirtækja. Það gengur ekki að ráðherrar séu með puttana í málum af því tagi," segir Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×