Skorað á bæjarstjórn Kópavogs
Grunnskólakennarar í Kópavogi fjölmenntu á fund forseta bæjarstjórnar í dag til að skora á hann að beita sér fyrir lausn kjaradeilunnar við kennara. Að því loknu flykktust kennarar á bæjarstjórnarfund. Kennarar telja að mikill misbrestur sé á því að sveitarstjórnarmenn hafi sett sig inn í kröfugerð kennara í kjarasamningunum. Þeir telja að sveitarstjórnarmenn gætu liðkað til fyrir lausn deilunnar með því að setja sig betur inn í málið. Sigurður Haukur Gíslason, kennarasambandi Kópavogs segir að farið sé fram á það að bæjarstjórn Kópavogs kynni sér kröfugerð kennara og beiti sér fyrir lausn deilunnar í framhaldinu. Þó sé ekki verið að biðja um að tekið verði fram fyrir hendurnar á launanefnd sveitafélaganna. Hins vegar mættu sveitastjórnarmenn kynna sér kröfugerðina og velta henni fyrir sér sín á milli. Sigurður segir að Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði hafi sýnt gott fordæmi með því að benda á að hluti vandans fælist í því að sveitarstjórnir væru ekki fjárhagslega í stakk búnar til að mæta kröfum kennara. Undir þetta taka foreldrasamtökin Heimili og skóli sem sögðu í tilkynningu í dag að auknar kröfur til skólastarfs hefðu haft í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin og því þyrfti að endurmeta tekjustofna þeirra. Sigurður segir að mikið fjármagn hafi farið í að bæta skólakerfið, en það hafi ekki farið í vasa grunnskólakennara, en nú sé röðin komin að þeim. Hann segir að ríkisvaldið verði að auka fjárframlög til sveitarfélaganna, svo að þau geti staðið við kröfur grunnskólakennara.