Innlent

Skattrannsóknarstjóri þarf meira

Skattrannsóknarstjóri hefur farið fram á viðbótarfjárheimild í fjáraukalögum fyrir þetta ár upp á fjórtán milljónir króna. Þessarri fjárhæð er ætlað að mæta kostnaði vegna stórra mála sem eru til meðferðar hjá embættinu. Í umsögn í frumvarpi til fjáraukalaga segir að leita þurfi aðstoðar sérhæfðari mannafla og kaupa þjónustu sérfræðinga, svo sem löggiltra endurskoðenda og lögmanna, auk þjónustu þýðenda til að ljúka rannsókn málanna. Þá segir að mál þau sem nú eru til rannsóknar hafi reynst umfangsmeiri en gert hafi verið ráð fyrir. Sem dæmi um umfangsmikil mál má nefna rannsókn á skattamálum Baugs og tengdum félögum, eins og fjárfestingarfélagi Jóhannesar Jónssonar og barna, Gaums. Fjölmenn sveit frá skattrannsóknarstjóra framkvæmdi húsleit í höfuðstöðvum Baugs við Túngötu í nóvember á síðasta ári. Aðgerðin tengdist rannsókn efnahagsdeildar Ríkislögreglustjóra á málefnum forsvarsmanna Baugs sem staðið hefur yfir í um tvö ár. Í júlí á þessu ári lauk skattrannsóknarstjóri við aðra útgáfu frumskýrslu vegna málsins. Lögmenn fyrirtækisins höfðu heilmikið við niðurstöðu embættisins að athuga en óvíst er hvar málið er statt nú. Þegar leitað var eftir því nýlega vildi hvorki Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, né Skúli Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóri, tjá sig um gang rannsóknarinnar, þ.e.a.s. ekki einu sinni hvort henni væri lokið eða ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×