Innlent

Ekkert annað en vísir að her

Það er alltaf slæmt að heyra af mannfalli og slysförum hvort sem það eru Íslendingar eða útlendingar sem eiga í hlut," segir Stefán Pálsson, formaður félags herstöðvaandstæðinga, um sjálfsmorðsárásina í Kabúl þar sem þrír Íslendingar særðust. Stefán segir umfjöllun um þetta í erlendum miðlum sýna að íslenska friðargæslan sé ekkert annað en vísir að íslenskum her. Friðargæsluliðar klæða sig og hegða sér sem her og vinna innan um hermenn annarra þjóða. "Þetta má ekki heita her hérna heima, það stendur eitthvað í mönnum. Enda er það mjög sérstakt að ríkisstjórn Íslands hafi tekið jafn afdrifaríka ákvörðun eins og að koma upp einhvers konar ígildi hers án þess að um það hafi farið fram nokkur umræða á þingi eða í samfélaginu," segir Stefán. Hann segir að verið sé að kalla hlutina röngum nöfnum og því hafi alþjóðlegar hjálparstofnanir og samtök verið að vara við. Þannig sé verið að gera raunverulegt hjálparstarf og friðargæslu hættulegri. Skír skil verði að vera á milli friðargæslu og hjálparstarfs og herliðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×