Erlent

Hinir staðföstu halda heim

Uppreisnarmenn í Írak halda áfram árásum sínum og er lögregla vinsælt skotmark. Fyrir vikið fækkar í röðum írakskra sveita og hinir staðföstu halda heim á leið. Dagurinn í Írak hófst á sjálfsmorðssprengjuárás við græna svæðið svokallaða, rétt eins og gærdagurinn. Tólf særðust, sumir hverjir alvarlega, en óljósar fregnir berast af mannfalli. Árásir hafa verið algengar undanfarið og er talið víst að þeim muni enn fjölga í aðdraganda kosninga í landinu. Yfirvöldum er mikið í mun að sýna fram á að uppreisnarmenn hafi ekki frumkvæðið í baráttunni og að árangur náist í að kveða þá niður. Yfirlýsing Iyads Allawis, forsætisráðherra Íraks, í dag var þáttur í sálfræðihernaðinum en hann sagði að í næstu viku muni réttarhöld yfir forystumönnum fyrri stjórnar hefjast. Hann greindi einnig frá handtöku eins samverkamanna hryðjuverkaleiðtogans al-Zarqawis. Skömmu síðar létu uppreisnarmenn á ný til sín taka og gerðu árás á hópferðabíla sem fluttu írakska lögreglumenn frá Basra til Bagdad. Nokkur fjöldi lá í valnum að átökunum loknum og segir eitt vitna að lík liggi á víð og dreif og að bardagar standi þar enn. Loks bárust fregnir frá Varsjá þess efnis að Pólverjar ætli að fækka hersveitum sínum í Írak um þriðjung frá og með febrúar á næsta ári. Raunar hefur fækkað í hersveitum hinna staðföstu í Írak: Nikaragúa, Spánn, Hondúras, Filippseyjar, Taíland og Nýja-Sjáland hafa kallað sveitir sínar heim, Holland og Ungverjaland ætla að kalla sínar sveitir heim á næstu vikum og Úkraína, Moldóvía, Noregur og Búlgaría hafa fækkað í herliði sínu í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×