Erlent

Yfir 20 létust í sprengjuárás

22 létust og rúmlega 50 særðust í sprengjuárás á bandaríska herstöð í borginni Mosul í norðurhluta Íraks í gær.Samtökin Ansar al-Sunnah hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, en þau eru sögð vilja koma álíka stjórnarfari á í Írak og talibanar höfðu í Afganistan. Talið er að flugskeyti hafi hæft matsal í herstöðinni með fyrrgreindum afleiðingum. Ekki var vitað hversu margir hinna föllnu og særðu eru bandarískir og hversu margir íraskir en stöðin er notuð af bæði bandaríska hernum og öryggissveitum bráðabirgðastjórnar Íraks. Mosul er þriðja stærsta borg Íraks og var talin friðsöm fyrstu mánuðina eftir fall stjórnar Saddams Hussein. Undanfarna mánuði hafa átök þar farið stigvaxandi og í gær mótmæltu stúdentar á götum úti og kröfðust þess að Bandaríkjamenn hættu að ráðast inn á heimili fólks. Í fyrra dóu 17 bandarískir hermenn eftir að tvær þyrlur af gerðinni Black Hawk rákust saman í skothríð og hafa ekki fleiri fallið í einni árás.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×