Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, hefur verið skipaður formaður nefndar sem á að skoða hvernig Ísland geti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tilkynnti þetta í gær.
Ekki er búið að skipa aðra nefndarmenn en samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins verður það væntanlega gert í næstu viku. Forsætisráðherra hefur í nokkurn tíma talað um þennan möguleika, meðal annars á viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands, sem þá hét, í febrúar síðastliðnum.
"Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð," sagði Halldór í ræðu sinni. Sagði hann það tækifæri vera vegna þess að á Íslandi störfuðu kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hefðu kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda. Einnig vegna mannauðs sem hér er og mikils og góðs stöðugleika.