Innlent

Veðurstofan ákveði ekki rýmingu

Átta sýslumenn og bæjarstjórar á Vestfjörðum hafa sent frá sér orðsendingu vegna umræðna um að Veðurstofan eigi ekki að taka ákvörðun um rýmingu húsa vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum. Bent er á að Veðurstofan hafi ekki lögregluvald til að rýma hús heldur sé það hlutverk lögreglustjóra og almannavarnanefnda. Samstarf Lögreglustjóra og almannavarnanefnda við snjóflóðasérfræðinga Veðurstofunnar hafi reynst afar vel og því sé ástæðulaust, að mati hópsins, að breyta því fyrirkomulagi sem nú er með öryggi almennings að leiðarljósi. Eins og greint var frá á Vísi í morgun féll tíu metra breitt og tveggja metra djúpt snjóflóð á þjóðveginn á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar í gærkvöldi og lokaði honum. Enginn var á ferð um veginn þegar það féll og Vegagerðin ruddi veginn. Snjóflóð hafa áður fallið á þessum slóðum. Viðbúnaðarástand er enn á norðanverðum Vestfjörðum vegna mikilla snjóalaga en þar er nú gott veður og ástand snjóalaga batnar með hverri klukkustund sem líður. Þannig dregur úr hættu úr skafrenningi og snjósöfnun í gil ef vind fer að hreyfa en snjósöfnun, einkum í giljum, skapar snjóflóðahættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×