Innlent

Brunagildran reist án leyfis

Björn Karlsson brunamálastjóri segir að það hefði getað breytt öllu ef tilskilin leyfi hefðu verið fengin til að byggja húsið sem eldurinn kom upp í á svæði Hringrásar í nóvember. Nú fyrir helgi var gefin út skýrsla Brunamálastofnunar vegna brunans á athafnasvæðinu og þar kemur fram að húsið er hvergi skráð. Lögreglurannsókn leiddi í ljós að eldurinn kviknaði út frá hleðslutæki fyrir lyftara í atvinnuhúsnæði á Hringrásarsvæðinu, rétt við dekkjahaugana. Húsið brann til kaldra kola og langan tíma tók að ráða niðurlögum eldsins í dekkjahaugunum. Björn segir að ef atvinnuhúsnæðið hefði verið byggt eftir venjulegum leiðum hefðu verið gerðar kröfur um að brunavarnir væru í lagi. Þá hefðu teikningar af húsinu verið bornar undir byggingafulltrúa sem aftur hefði lagt þær fyrir eldvarnaeftirlitið. "Það eru ýmsar kröfur settar um hús af þessu tagi. Meðal annars að lyftarahleðsla sé í sérstöku brunahólfi," segir Björn. Slíkt brunahólf er brunahelt herbergi sem getur haldið eldi í sextíu mínútur. Hann segir vel þekkt að eldur kvikni út frá hleðslutæki fyrir lyftara þegar þeir eru hlaðnir yfir nótt. Björn segir lítið hægt að segja til um hvernig brunavarnir í húsinu voru þar sem engin gögn virðast vera til um húsið. "Húsið er bæði farið og var í raun aldrei til. Við vitum ekkert um húsið og getum ekki tjáð okkur um hvort brunavarnirnar hafi verið slæmar eða sæmilegar," segir Björn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×