Viðskipti innlent

Lánssamningur upp á 6,3 milljarða

Fulltrúar IFP Holdings Ltd., sem er eignarhaldsfélag um fjárfestingar SH í Bretlandi, Íslandsbanki og Landsbanki Íslands hafa undirritað sambankalánssamning að fjárhæð 53 milljónir punda, eða tæpir 6,3 milljarðar íslenkar krónur. Lánið er til sjö ára og mun IFP Holdings nota fjárhæðina til endurfjármögnunar vegna kaupa á Seachill Ltd. og Cavaghan & Gray á síðasta ári. Íslandsbanki er umsjónarbanki lánsins. IFP Holdings gekk frá kaupum á 80% hlut í Seachill Ltd. í júlí á síðasta ári fyrir um 37 milljónir punda. Fjárfestingin var upphaflega fjármögnuð með brúunarláni til skamms tíma. Seachill er sérhæft í framleiðslu ferskra sjávarafurða og er Tesco langstærsti viðskipavinur þess. Velta félagsins á árinu 2004 nam um 90 milljónum punda, eða um 11 milljörðum íslenskra króna. Í nóvember sl. fjárfesti IFP Holdings í sjávarafurðaframleiðslu Cavaghan & Gray. Við kaupin mun framleiðsla dótturfélaga IFP Holdings á kældum sjávarafurðum aukast um 40 milljónir punda. Kaupverð nam um 13 milljónum punda sem einnig var fjármagnað með brúunarláni til skamms tíma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×