Viðskipti innlent

Viðunandi hagnaður sjávarútvegs

Sjávarútvegur er rekinn með viðunandi hagnaði, bæði á þessu ári og því síðasta, að mati fjármálaráðuneytisins. Það spáir því að tekjur greinarinnar í ár verði tuttugu milljörðum króna hærri en útgjöldin. Sterk staða krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og sér í lagi gagnvart bandaríkjadollar hefur vakið spurningar um stöðu sjávarútvegs sem fær tekjur í erlendum gjaldeyri. Áhyggjur manna af útgerð og fiskvinnslu eru hins vegar ástæðulausar miðað við nýlega afkomuspá fjármálaráðuneytis. Ráðuneytið áætlar að tekjur sjávarútvegs hafi á nýliðnu ári numið tæplega 117 milljörðum króna en rekstrargjöldin tæplega 97 milljörðum. Vergar hagnaður hafi þannig numið 20 milljörðum króna eða liðlega 17 prósentum af tekjum. Á þessu ári er því spáð að tekjur greinarinnar verði um 125 milljarðar króna en rekstrargjöldin 103 milljarðar. Vergar tekjur nemi því liðlega 21 milljarði króna, eða nærri 17 prósentum af heildartekjum. Þegar hreinn hagnaður fyrir skatta í ár og í fyrra er borinn saman við tvö árin þar á undan sést reyndar að heldur dregur úr hagnaðinum. Í stað þess að vera á bilinu 11 til 13 milljarðar, eða um 10 prósent af tekjum eins og var 2002 og 2003, fellur hreinn hagnaður fyrir skatta niður í 7 til 8 milljarða króna, eða liðlega 6 prósent af tekjum í ár og í fyrra. Fjármálaráðuneytið segir að í sögulegu ljósi geti greinin vel við unað, gangi þessi spá eftir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×