Viðskipti innlent

250 milljónir bíða eigenda

Nokkrir einstaklingar eiga samtals 250 milljónir króna hjá Íbúðalánasjóði í óinnleystum húsbréfum. Um er að ræða húsbréf sem búið er að draga út en eigendur hafa ekki innleyst, að sögn Halls Magnússonar sviðsstjóra hjá sjóðnum. "Þetta er töluverð fjárhæð en var þó miklu hærri áður en við fórum í skuldabréfaskiptin í tengslum við breytingar á skuldabréfaútgáfu sjóðsins 1. júlí," sagði hann. "Þá voru þessar ósóttu fjárhæðir samtals 800 milljónir króna." Hallur sagði að á ofangreindum tímapunkti hefði húsbréfakerfið verið lagt niður og tekin upp bein peningalán í staðinn. Þá var boðið upp á að fólk gæti skipt á húsbréfum í ákveðnum flokkum yfir í hin nýju íbúðabréf. Þá hefðu margir skoðað bréfin sín með skipti í huga og séð að þeir áttu peninga hjá sjóðnum sem þeir höfðu ekki innleyst. Spurður hvort 250 milljónirnar væru í ávöxtun hjá sjóðnum sagði Hallur svo ekki vera. "Innlausnarverð húsbréfa ber hvorki vexti né verðbætur frá innlausnardegi. Þess vegna auglýsir Íbúðalánasjóður reglulega númer útdreginna bréfa að minnsta kosti 2 mánuðum fyrir innlausnardag ef um húsbréfaflokka er að ræða sem eingöngu eru í pappírsformi. Einnig eru auglýst reglulega númer áður útdreginna óinnleystra bréfa. Þá eru allar upplýsingar að finna á vef sjóðsins, ils.is. Loks hefur Íbúðalánasjóður hvatt eigendur húsbréfa til að setja þau í innheimtu hjá fjármálafyrirtækjum, sem fylgjast reglulega með útdrætti húsbréfa." Hallur sagði að síðasti flokkurinn og síðasta bréfið yrði væntanlega dregið árið 2041. Síðustu húsbréfaflokkarnir hefðu verið alfarið rafrænir, sem þýddi að tenging væri við bankareikning viðkomandi eiganda. Ef nú væri dregið úr húsbréfaflokkum 2001, að stærstum hluta 1998 og að hluta 1996, sem búið væri að rafvæða, þá rynnu fjármunirnir beint inn á skilgreindan reikning eiganda. Þannig myndi þessi uppsöfnun óinnleystra húsbréfa brátt heyra sögunni til.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×