Viðskipti innlent

Uppgjör Marels og Atorku í dag

Tvö stór félög birta í dag uppgjör fyrir árið 2004. Marel og Atorka eru bæði í Úrvalsvísitölu hlutabréfa. Af þremur greiningardeildum bankanna gefur einungis Landsbankinn út afkomuspá fyrir Fjárfestingarfélagið Atorku. Landsbankinn spáir félaginu 2,5 milljarða króna hagnaði á árinu 2004 en sá hagnaður er næstum einvörðungu kominn til á fyrstu þremur ársfjórðungunum. Landsbankinn gerir ráð fyrir að hagnaður af rekstrinum á fjórða ársfjórðungi hafi einungis verið 5 milljónir. Atorka er mikið breytt félag frá árinu 2003, þegar hagnaðurinn nam 404 milljónum króna, og hefur í millitíðinni meðal annars sameinast Afli. Um líklega afkomu Marels ríkir mikill samhljómur meðal greiningardeildanna. Aðeins munar 200 þúsund evrum á hæstu og lægstu spá. Árið 2003 var hagnaður Marels 3,7 milljónir evra en árið 2002 var hagnaðurinn 50 þúsund evrur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×