Viðskipti innlent

Aðför gegn Íbúðalánasjóði

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) reyna allar leiðir til að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Hann segir þau samráðsvettvang stærstu fjármálafyrirtækjanna. Ögmundur undrast að Byggðastofnun skuli eiga aðild að samtökunum og spyr hvers vegna stofnunin taki þátt í aðförinni gegn Íbúðalánasjóði. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir þetta misskilning. Byggðastofnun hafi aldrei átt fulltrúa í stjórn SBV og aldrei tekið þar þátt í stefnumótun. "Ég er talsmaður samvinnu ef hún er til góðs, en menn mega ekki koma fram í dulargervi. Það er látið í veðri vaka að samtökin tali í þágu opinnar samkeppni, en það er undarlegt að fyrirtæki sem vilja opinn markað sameinist um að koma þeim fyrir kattarnef sem veita þeim mesta samkeppni," segir Ögmundur. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SBV, segir það fráleit ummæli að samtökin séu einhver samráðsvettvangur. "SBV eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja í landinu, rétt eins og heildarsamtök annarra atvinnugreina. Það er hlutverk slíkra samtaka að berjast fyrir eðlilegum starfsskilyrðum og hagsmunabarátta sem beinist að því að ríkið hætti beinni starfsemi á samkeppnismarkaði er beinn þáttur í því."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×