Viðskipti innlent

Vöruskiptahalli 38 milljarðar

Hallinn á vöruskiptum við útlönd í fyrra nam tæpum 38 milljörðum króna. Það er rúmum 21 milljarði króna meiri halli en árið þar áður. Út voru fluttar vörur fyrir rösklega 202 milljarða, sem var aukning um rúma 22 milljarða eða rúm 12 prósent frá árinu áður. Andvirði innfluttra vara var röskir 240 milljarðar og var það aukning um röska 43 milljarða eða 22 prósent. Sjávarafurðir voru 60 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 8,5 prósentum meira en árið áður. Mesta verðmætaaukningin var í útflutningi á ferskum fiski en einnig í saltfiski og frystum flökum. Iðnaðarvörur voru 35 prósent útflutningsins og þar var mesta verðmætaaukningin í útflutningi á lyfjum, lækningavörum og áli. Aukning varð í flestum liðum innflutnings en þó mest í flutningatækjum, hrá- og rekstrarvöru og fjárfestingarvöru. Greiningardeildir bankanna spá viðvarandi vöruskiptahalla á næstu mánuðum og misserum og telja að fyrr en síðar fari það að veikja krónuna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×