Viðskipti innlent

Flytja skiptiborð til Ísafjarðar

Íslandsbanki hefur ákveðið að flytja símaskiptiborð bankans til Ísafjarðar og er gert ráð fyrir að starfsmönnum í útibúinu þar fjölgi um helming vegna þessa. Samkvæmt tilkynningu frá bankanum mun breytingin verða í áföngum. Tveir starfsmenn hefja störf við símaskiptaborðið á Ísafirði á næstu vikum og er gert ráð fyrir að stöðugildin verði orðin yfir tíu á fyrri hluta ársins 2006. Níu starfsmenn vinna nú í útibúinu á Ísafirði þannig að heildarstarfsmannafjöldi verður um 20 þegar yfir lýkur. Fram kemur í tilkynningunni að ekki hafi komið til neinna uppsagna vegna flutnings símaskiptiborðsins og að bankinn muni reyna að flytja þá starfsmenn skiptiborðsins sem þess óska til í starfi innan bankans og bjóða þeim upp á endurmenntun í því skyni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×