Viðskipti innlent

Söluþrýstingur í Kauphöll

Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni er skyndilega farin að lækka ört eftir að hafa hækkað um ellefu prósent frá áramótum og hefur nú myndast söluþrýstingur. Í gær og í fyrradag hefur hún lækkað um tæp fjögur prósent og í gær var mun meira af sölutilboðum en kauptilboðum í umferð sem bendir til að margir vilji losa sig við íslensk hlutabréf. Lækkunin hélt áfram í morgun og hafði vísitalan lækkað um tæpt eitt prósent til viðbótar á tíunda tímanum. Sumir spá enn meira framboði eftir að eigendur bréfa hafa innleyst arð af þeim fyrir síðasta ár, sem er einmitt að gerast þessa dagana í tengslum við aðalfundi. Áður en vísitalan fór að lækka á mánudag var hún farin að slaga upp í hámarkið sem hún náði í október í fyrra, en í kjölfar þess topps varð talsverð lækkun. Fjögurrra prósenta lækkun á tveimur dögum er með því mesta í sögu Kauphallarinnar. Þrátt fyrir lækkunina nú óttast sérfræðingar ekki hrun en búast þó við enn frekari lækkun í fyrirsjáanlegri framtíð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×