Erlent

Hörð átök á breska þinginu

Harka einkennir átök Tonys Blairs við stjórnarandstöðuna á breska þinginu en þar er hryðjuverkalagafrumvarp stjórnvalda til umræðu. Enginn vill gefa eftir og þræturnar gætu því dregist á langinn. Umræða um frumvarpið hefur tröllriðið breskum fjölmiðlum undanfarna daga. Verði það samþykkt fá bresk stjórnvöld meðal annars heimild til að hneppa grunaða í stofufangelsi, setja á útgöngu- og ferðabönn og fleira af þeim meiði. Nánast um leið og stjórnin lagði frumvarpið fram gaf hún eftir og lagaði það lítillega að kröfum stjórnarandstöðunnar. Því næst var spyrnt í og neitað að gefa meira eftir og þá töldu margir stjórnmálaskýrendur að lögin væru andvana fædd. Baráttan og orrahríðin á þingi stendur enn.  Blair segir þetta spurningu um dómgreind fyrir Michael Howard, leiðtoga Íhaldsfloksins, og flokkinn allan. „Þeir verða einfaldlega að skilja að það er ábyrgðarlaust að halda áfram að útvatna og veikja þessi lög. Það er rangt og þeir ættu að hætta því,“ sagði Blair og bætti við að Neðri málstofa þingsins hefði látið álit sitt greinilega í ljós. „Við þurfum á þessum lögum að halda til að vernda öryggi fólks í landinu,“ sagði forsætisráðherrann. Forsyth lávarður, fyrrverandi ráðherra Skotlands, líkti aðgerðum Blair við hegðun barns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×