Miklar umferðartafir urðu við Egilshöll í gærkvöld þegar þúsundir manna streymdu þangað til að hlýða á tónleika spænska tenórsins Placido Domingo. Þegar verst lét lá bílaröð frá höllinni og niður undir Ártúnsbrekku. Að sögn lögreglu gekk umferðin þó áfallalaust fyrir sig en seinkun varð á tónleikunum af þessum sökum. Lögreglan segir deginum ljósara að gatnakerfið beri engan veginn slíkan umferðarþunga. Það tók síðan hljómleikagesti allt að klukkustund að komast frá höllinni að söng Domingos loknum.