Viðskipti innlent

Áfram einungis karlar í stjórn

Fimm karlar voru endurkjörnir í stjórn Sparisjóðabankans á dögunum. Eina konan sem var í framboði komst ekki að þrátt fyrir áskoranir ráðherra um að reyna að jafna kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Síðasta haust var mikil umræða í samfélaginu um hversu ótrúlega fáar konur sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Yfirvöld skoruðu á konur að bjóða sig fram til stjórnarsetu til að reyna að jafna hlutföllin. Margrét Hólm Valsdóttir, sparisjóðsstjóri Þingeyinga, ákvað að taka þessari áskorun. Hún segir að að með fundarboði fyrir aðalfund Sparisjóðabankans hafi fylgt bréf frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem hvatt hafi verið til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnum fyrirtækja. Henni hafi ekki fundist hún geta annað en að taka áskoruninni. Margrét segir að sex hafi verið í kjöri í fimm manna stjórn en kosningin hafi farið þannig að stjórnin hafi verið óbreytt og í henni sitji áfram fimm karlar. Margrét segir greinilegt að ekki hafi allir verið jafn ánægðir með framboð hennar svo ekki sé meira sagt. En má þá segja að þetta sé ef til vill dæmigert - rætt sé um þörfina á að fjölga konum í stjórnum en þegar til kastanna komi sé viljinn ekki mikill til breytinga? Margrét segir það umhugsunarefni að loksins þegar konur láti verða af því að bjóða sig fram í stjórnir fyrirtækja og stofnana sé ekki grundvöllur fyrir því að breyta þeim strúktúr sem fyrir er.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×