Innlent

Vill selja Lánasjóð landbúnaðarins

Stjórnvöld eru að leita leiða til að selja Lánasjóð landbúnaðarins að sögn Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær sagði Guðni að nefnd, sem hann skipaði til að fara yfir mál lánasjóðsins, hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að reka hann áfram heldur selja. Eignir sjóðsins eru metnar á 3,4 milljarða króna. Samkvæmt nefnd ráðherra á andvirði sölunnar að renna í Lífeyrissjóð bænda. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sagðist mótfallinn sölu sjóðsins sem hefði veitt mörgum bónum lán, sem annars hefðu ekki átt möguleika á hagstæðum lánum hjá bönkum. Lánasjóður landbúnaðarins var stofnaður árið 1997 til þess að taka við hlutverki Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Hlutverk sjóðsins er að tryggja landbúnaðinum, bændum og þjónustufyrirtækjum landbúnaðarins, aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að þróun atvinnuvegarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×