Innlent

Dæmdur fyrir dópsmygl í Danmörku

Íslendingur á fertugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Danmörku fyrir stórfellt fíkinefnasmygl. Til stóð að flytja fíkniefnin til Íslands. Maðurinn var stöðvaður við landamæri Þýskalands og Danmerkur í febrúar, en hann var að koma frá Hollandi. Við leit í bíl hans fundust 35 kíló af hassi í farangursgeymslunni. Maðurinn, sem var einn á ferð, var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan á rannsókn málsins stóð. Hann hefur nú verið dæmdur og fékk hann 2 1/2 árs fangelsi, sem kom bæði dönskum og íslenskum lögreglumönnum nokkuð á óvart því málið telst stórt, bæði á Íslandi sem og í Danmörku. Við rannsókn málsins kom í ljós að ætlunin var að flytja fíkniefnin til Íslands. Um svipað leyti var annar Íslendingur handtekinn í Norður-Þýskalandi með 30 kíló af hassi og við rannsókn málsins kom í ljós að ætlunin var að flytja kílóin 30 til Íslands. Ekki er búið að kveða upp dóm yfir manninum svo Stöð 2 sé kunnugt um. Þá er enn í fullum gangi rannsókn í máli tveggja skipverja af togaranum Hauki ÍS, en þeir voru teknir í Bremerhaven í byrjun janúar með mikið af fíkniefnum. Þeir reyndust vera með 3 1/2 kíló amfetamíni og 3 1/2 kíló af kókaíni. Þeir voru í framhaldinu úrskurðaðir í 6 mánaða gæsluvarðhald og stendur rannsókn málsins enn yfir. Togarinn var í sölutúr í Þýskalandi en fíkniefnin komu þangað frá Hollandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×