Erlent

Blair kynnti kosningaloforðin

Kosningabaráttan í Bretlandi er komin á fullan skrið. Verkamannaflokkurinn kynnti kosningaloforð sín í dag við litla hrifningu íhaldsmanna.  Eins og búist hafði verið við verða efnahagsmálin og hagvöxtur síðustu ára megin kosningamál Verkamannaflokksins og efnahagsundri vinstri manna, fjármálaráðherranum Gordon Brown, er þar mikið hampað. Sá skuggi fellur þó á að atvinnuleysi fer vaxandi í Bretlandi eins og Íhaldsflokkurinn er óspar að benda á. Íhaldsmenn setja stórhertar reglur um innflytjendur á oddinn í þessum kosningum. Forystumenn flokkanna notuðu tækifærið í dag og skattyrtust hvor út í annan. Tony Blair forsætisráðherra sagði að það yrði að tryggja að aðeins þeir sem þörf og vilji sé fyrir að komi til landsins geti það, og boðaði hann strangar reglur um innflytjendur. „En þar sem Bretar eru gott og umburðarlynt fólk munum við halda áfram að veita raunverulegum flóttamönnum hæli og látum pólitík aldrei stjórna innflytjendamálum,“ sagði Blair. Michael Howard, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði fólk hafa gefist upp á Blair því það sjái að hann hafi misst tökin. Stefnuyfirlýsing hans sé full af loforðum en Howard spurði hvað forsætisráðherrann hafi verið að gera sl. átta ár í embætti. „Það er þýðingarlaust að koma með loforð núna. Hann hafði átta ár,“ sagði Howard.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×