Innlent

Vill leiða flokkinn áfram

"Það er enn langt í landsfundinn en ég á ekki von á öðru en að bjóða mig áfram fram í formannssætið," segir Davíð Oddsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur ekki áður opinberlega tilkynnt slíkt en næsti landsfundur flokksins, sá 36. í röðinni, fer fram 13. til 16 október næstkomandi. Davíð Oddsson hefur gengt formennsku í flokk sínum óslitið um fjórtán ára skeið en formaður er kosinn til tveggja ára í senn á landsfundi og hafa þar allir kosningarétt en rúmlega þúsund manns sátu síðasta landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2003. Á þeim fundi hlaut Davíð bestu kosningu sem nokkur formaður flokksins hefur hlotið í sögu flokksins eða 98 prósent atkvæða. Haldi Davíð áfram næstu tvö árin sem formaður er hann engu að síður aðeins hálfdrættingur á við Ólaf Thors sem gengt hefur þessu embætti flokksins lengst allra frá 1934 til 1961 eða 27 ár alls. Davíð lét hafa eftir sér á síðasta landsfundi að engin brýn þörf væri á að endurnýja í forystu Sjálfstæðisflokksins næstu árin. Þar væru allir ungir menn ennþá þó flestir hefðu verið lengi í stjórnmálum. "Ég á enn langt í land með að ná Ólafi Thors en auðvitað er þetta allt afstætt." Ýmislegt hefur þó bjátað á í lífi Davíðs síðan þá. Skemmst er að minnast baráttu hans við erfið veikindi síðasta sumar. Var hann þar lagður inn vegna gallblöðrubólgu en við rannsóknir komu í ljós illkynja æxli í nýra og skjaldkirtli og gekk hann undir skurðaðgerðir í kjölfarið. Stutt er síðan hann lagðist aftur inn á sjúkrahús til eftirmeðferðar. Hún gekk vel og hefur Davíð hafið störf að nýju. albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×