Innlent

Borgarstjóri fagnar Kjarvalsmáli

Borgarstjóri segir gott að óvissu um meinta gjöf Kjarvals til borgarinnar verði eytt. Mál barnabarns Kjarvals gegn borginni verður þingfest í héraðsdómi á morgun. Ingimundur Kjarval hefur síðastliðin fimm ár barist fyrir því að fá um fimm þúsund listaverk og rúmlega eitt þúsund bækur úr eigu afa síns sem Reykjavíkurborg telur að listmálarinn hafi ánafnað borginni árið 1968. Ingimundur telur mikinn vafa leika á því að afi sinn hafi í raun gefið borginni verk sín og bækur.  Ingimundur sagði í Silfri Egils í gær það sér mikinn ósigur að málið hafi farið fyrir dóm. Hann kveðst hafa sagt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þegar hún var borgarstjóri, að færi fram opinber rannsókn væri hann rólegur. Hún hafi hins vegar ekki svarað því. Arftaki Ingibjargar, Þórólfur Árnason, hafi veitt honum viðtal en ekkert hafi komið út úr því. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, núverandi borgarstjóri, sagði í samtali við Stöð 2 í dag að það væri ágætt að fá þessari óvissu eytt í eitt skipti fyrir öll en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×