Innlent

Spurningum fékkst ekki svarað

Tvisvar hófust umræður um fundarsköp á fundi borgarstjórnar í gær að frumkvæði sjálfstæðismanna. Ástæðan var að sjálfstæðismenn töldu að Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefði ekki svarað tveimur spurningum sem Guðlaugur Þór Þórðarson vísaði til hennar, auk þess sem hún hefði lítið verið í fundarsal þennan borgarstjórnarfund. Vonuðu þeir að þetta yrði ekki að vana borgarstjóra. Þær spurningar sem ekki fengust svarað var annars vegar hvort ákvörðun hafi verið tekin um leið Sundabrautar. Hins vegar hvort borgstjóri sé sáttur við tengingu Sundabrautar Grafarvogsmegin. Í andsvari svaraði Steinunn Valdís því til að hún hafi lítið verið í fundarsal, sökum frétta um uppbyggingu Háskólans í Reykjavík í Urriðaholti. Því hafi hún verið upptekin við að svara fyrirspurnum fréttamanna. Einnig hafi hún verið upptekin við að ræða við ráðherra um samgönguáætlun þá er lögð hefur verið fram. Hvað varðar fyrirspurnirnar hafi hún svarað þeim nokkrum sinnum áður á fundi borgarstjórnar, auk þess sem Stefán Jón Hafstein hafi efnislega svarað spurningunum síðar á fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×