Erlent

Leiðtogar Kína og Japans funda

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, segist vera á leið til fundar við Hu Jintao, forseta Kína. Koizumi baðst fyrr í morgun opinberlega afsökunar á grimmdarverkum Japana í Seinni heimsstyrjöld. Ekki hefur verið staðfest að af fundinum verði en þar stendur til að reyna að bæta samskipti landanna sem eru nú verri en þau hafa verið í áratugi vegna deilna um japanska kennslubók. Róstur og mótmæli hafa verið vegna hennar í Kína undanfarnar vikur og hefur verið ráðist að japönskum fyrirtækjum og stofnunum. Koizumi hélt í nótt ávarp á ráðstefnu Asíuþjóða á Jakarta í Indónesíu og sagði þar að grimmdarverk Japana hefðu valdið öðrum Asíuþjóðum gríðarlegu tjóni og þjáningum og það væri alls ekki ætlun þeirra að þvo hendur sínar af því sem átti sér stað í heimsstyrjöldinni síðari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×