Innlent

Ríkisendurskoðandi á fund Halldórs

Ríkisendurskoðandi var kallaður fyrir fjárlaganefnd í dag til ræða einkavæðingu stjórnvalda, þar á meðal á Búnaðarbankanum. Einróma niðurstaða fundarins var að kalla þyrfti fleiri fyrir nefndina, svo sem einkavæðingarnefnd, þar sem ýmsu væri ósvarað. Fyrir fundinn átti ríkisendurskoðandi fund með forsætisráðherra en neitar að upplýsa um efni hans. Ríkisendurskoðandi gat ekki svarað öllum spurningum nefndarmanna í fjárlaganefnd um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, þá sérstaklega bankanna. Því verður að kalla fleiri gesti fyrir nefndina. Það vakti athygli fréttastofu að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi átti fund í forsætisráðuneytinu með forsætisráðherra, áður en nefndarfundurinn hófst. Ríkisendurskoðun gagnrýndi sem kunnugt er ýmislegt varðandi einkavæðingu ríkisbankanna í skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árið 2003. Í kjölfar mikillar umræðu á Alþingi og í samfélaginu undanfarið ákvað fjárlaganefnd hins vegar að skoða málið ofan í kjölinn. Eftir að hafa kallað ríkisendurskoðun fyrir í dag fannst mönnum ekki nóg að gert og því var það einróma niðurstaða að kalla til fleiri. Sigurður Þórðarson var spurður um fundinn með forsætisráðherra í morgun þegar hann gekk af fundi fjárlaganefndar. Hann svaraði því til að hann tali oft og tíðum við forsætisráðherra. Ríkisendurskoðandi vildi ekki gefa upp umræðuefnið. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, sagðist aðspurður ekki margar spurningar brenna á honum í málinu. Þó sé eðlilegt að menn fái á hreint hvernig málið var framkvæmt. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, segir ýmsum spurningum ósvarað, t.d. af hverju ekki var farið eftir hæsta verði, af hverju hóparnir voru alltaf að breytast og af hverju stærsta eignin í Landsbankannum var seld út úr. Hann segir ríkisendurskoðanda aðeins hafa svarað spurningunum að takmörkuðu leyti og vísaði gjarnan á aðra. Helgi segir að ræða verði við þá aðila, t.a.m. viðskiptaráðherra og framkvæmdanefnd um einkavæðinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×