Erlent

Bretar veðja um kosningaúrslit

Bretar hafa gaman af því að veðja og eitt af því sem þeir hafa veðjað á er veðrið í dag, kosningadaginn, en þeir veðja líka grimmt um úrslit kosninganna og ýmislegt fleira. Warren Lush, veðmangari hjá Ladbrokes, segir þetta einhliða kapphlaup fyrir veðmangarana. Veðhlutfallið sé 1-33 Verkamannaflokknum í hag og því svipað og í kosningunum 2001. Hann segir fólk veðja á íhaldsmenn og frjálslynda en mestu fé sé veðjað á Verkamannaflokkinn. Úrslitin virðist nokkur ljós. Aðspurður hver séu furðulegustu og heimskulegustu veðmálin sem Ladbrokes hafi fengið segir Lush að þau séu mörg. Einn hafi veðjað 150 pundum á það að frjálslyndir sigruðu í kosningunum. Menn hafi litlar áhyggjur af því veðmáli því það gerist aldrei. Charles Kennedy, leiðtogi frjálslyndra, og kona hans hafi eignast barnið Donald í kosningabaráttunni, en sonurinn eigi meiri möguleika, eða 1-100, en faðir hans á að verða forsætisráðherra. Þá hafi fólk veðjað 1-5 að John Prescott, staðgengill forsætisráðherra, kýli einhvern eins og hann hafi gert í síðustu kosningabaráttu, af hvaða ástæðu sem er og hvenær sem er. Lush segir  enn fremur að í Bretlandi sé mikið deilt um refaveiðar og Tony Blair sé á móti þeim. Ladbrokes hafi boðið veðmál upp á 1-500 um að hann sæist á refaveiðum áður en niðurstöður kosninganna lægju fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×