Innlent

Héðinsfjarðargöng verði slegin af

Samgönguáætlun Gunnars I. Birgissonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, gerir ráð fyrir því að Héðinsfjarðargöng verði slegin af en göng gerð frá Fljótum yfir á Siglufjörð. Gunnari þykir súrt í brotið að meirihluti stjórnarliða í samgöngunefnd samþykki að einungis fimmtungur fjár til vegaframkvæmda á næstu árum renni til suðvesturhornsins. Meirihluti samgöngunefndar Alþingis samþykkti samgönguáætlun í gærkvöld. En þar með er ekki öll sagan sögð. Gunnar lagði fram sína eigin áætlun í morgun til að freista þess að leiðrétta hlut höfuðborgarsvæðisins. Hann hafði áður sagt að yrði samgönguáætlun samgönguráðherra samþykkt myndi hann leggja fram sína eigin áætlun. Gunnar segir sína áætlun gera ráð fyrir sátt í málinu; fjármunir verði færðir til höfuðborgarsvæðisins. Eins og áður segir vill hann slá af Héðinsfjarðargöng, gera göng frá Fljótum yfir á Siglufjörð, önnur undir Vaðlaheiði sem tengja eigi Eyjafjarðarsvæðið og Húsavíkursvæðið og ferðamannalínuna yfir í Þingeyjarsýslu og Mývatn. Helstu verkefnin á höfuðborgarsvæðinu séu svo Sundabraut, tvöföldun Vesturlandsvegar ásamt mislægum gatnamótum og tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Gunnar segist ekki átta sig á því hvað valdi litlum vilja til framkvæmda á suðvesturhorninu. Hann telur að meiri sátt náist um samgöngumálin nái hans áætlun fram að ganga. Spurður hvort stuðningur sé við áætlunina meðal stjórnarliða segist hann ekki hafa gert könnun á því og það eigi því eftir að koma í ljós.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×