Innlent

Íslenskukrafan ekki til að stjórna

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er ósammála þeirri skoðun Guðrúnar Guðmundsdóttur mannfræðings, sem kom fram í Fréttablaðinu í gær, að krafan um íslenskukunnáttu sé leið til að hafa betri stjórn á fólki. Kannanir sýni að innflytjendum sé mikið kappsmál að fá tækifæri til að læra íslensku og telji það sjálfir bestu leiðina til að laga sig að íslensku þjóðfélagi. "Íslensk lög verða ekki talin ströng í þessu tilliti miðað við það sem víða gerist," segir Björn sem telur ekki sjálfgefið að fjármögnun íslenskunáms eigi að lenda á skattgreiðendum. Ingibjörg Hafstað, framkvæmdastjóri Fjölmenningar ehf., telur framsetningu Guðrúnar svolítið einfalda. Eina krafan sem sett sé fram í lögum sé sú að ljúka þurfi 150 íslenskutímum til að fá búsetuleyfi, engar kröfur séu settar fram um hversu mikið þurfi að kunna. Hins vegar hafi hún heyrt útlendinga halda því fram að þeir nái ekki framgöngu á vinnustað vegna ónægrar íslenskukunnáttu. Ingibjörg telur lögin um íslenskukunnáttu nokkuð einhliða, útlendingar eigi að ná sér í þessa íslenskutíma hvort sem þeir standi til boða eða ekki. Hún segir að vinnustaðir þurfi að bera meiri ábyrgð á því að gera fólki kleift að læra en yfirvöld þurfi þó að gefa tóninn og tryggja að öllum standi til boða íslenskunámskeið við hæfi. Ingibjörg er sammála Guðrúnu um að gerðar séu allt of miklar kröfur um málfræðilega kunnáttu, það snúi þó að almenningsáliti og komi lögum ekki við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×