Erlent

Ekki áhrif á stækkun ESB

Talsmaður Evrópusambandsins segir að framkvæmdastjórnin vilji ekki að fall stjórnarskrár sambandsins í kosningunum í Frakklandi í gær hafi áhrif á stækkun þess. Að stjórnarskráin skyldi felld í Frakklandi er gríðarlegt áfall fyrir sambandið, sem og ríkisstjórn Jacques Chiracs forseta. Menn velta því eðlilega fyrir sér afleiðingunum, bæði fyrir sambandið sjálft og frönsku ríkisstjórnina. Meðal annars hafa verið vangaveltur um að aðildarviðræður við Tyrkland, sem eiga að hefjast 3. október næstkomandi, renni út í sandinn. Það er hins vegar ekki vilji framkvæmdastjórnarinnar að svo fari. Francoia Le Beil, talsmaður hennar, sagði í dag að samþykkt stjórnarskrárinnar og stækkunarferli sambandsins séu tvö óskyld mál sem ekki eigi að hafa áhrif hvort á annað. Margar ástæður eru tíndar til fyrir því að Frakkar felldu stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ein sú helsta er þó sögð sú að þeir hafi verið að refsa ríkisstjórninni fyrir mikið atvinnuleysi sem er yfir tíu prósent. Jacques Chirac forseti virðist þó ekki ætla að taka þetta sem vísbendingu um að hans tími sé liðinn því hann tekur ekki í mál að segja af sér. Hins vegar hefur hann gefið í skyn að hann kunni að reka Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×